„Við finnum fyrir miklum áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi, sérstaklega frá Bandaríkjunum. Þar hafa söluherferðir okkar gengið vel. Við bindum jafnframt vonir við að Evrópa muni taka við sér fljótlega með sama hætti,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group en flutningatölur fyrir apríl voru birtar í gær. Fraktflutningar jukust á milli ára sem og fjöldi farþega í innanlandsflugi.

Heildarfjöldi farþega í millilandaflugi var um 8.900 í apríl en var um 1.700 í sama mánuði í fyrra. Fjöldi farþega til Íslands í apríl var um 5.500 manns. Þá jukust fraktflutningar félagsins um 50 prósent á milli ára í aprílmánuði.