Lög­reglan við al­ríkis­þing­húsið í Banda­ríkjunum verður með aukna öryggis­gæslu á morgun, þann 4. mars, vegna mögu­legra ó­eirða en sam­kvæmt sam­særis­kenninga­smiðum er það dagurinn sem Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, mun snúa aftur til valda.

Einn og hálfur mánuður er síðan Trump lét af em­bætti og Joe Biden tók við en sam­særis­kenninguna um að Trump muni snúa aftur má rekja til öfga-hægri­sinnuðu sam­takanna QA­non, sam­tök sem eru þekkt fyrir af­sannaðar sam­særis­kenningar tengdar Trump.

Fyrri kenning reyndist ekki rétt

Ó­ljóst er hversu margir styðja við QA­non en dæmi eru um að þing­menn Banda­ríkja­þings hafi lýst yfir stuðning. Þá hafa nokkrir ein­staklingar sem talið er að séu fylgjandi hug­mynda­fræði sam­takanna verið hand­teknir í tengslum við ó­eirðirnar við þing­húsið þann 6. janúar.

Stuðningurinn virtist þó dvína eftir að full­yrðing sam­takanna um að Trump yrði á­fram í em­bætti eftir 20. janúar og að hann myndi hand­taka Demó­krata í massa­vís rættist ekki. Eftir það var dag­setningin flutt til 4. mars og var vísað til þess að það hafi verið inn­setningar­dagur for­seta fyrir árið 1933.

Meðvituð um mögulega hættu

Í til­kynningu sem Al­ríkis­lög­regla Banda­ríkjanna, FBI, sendi frá sér í gær­kvöldi kemur fram að lög­reglan sé með­vituð um upp­lýsingarnar og mögulega hættu sem gæti stafað af samtökunum. Lög­reglan við þing­húsið starfar nú náið með öðrum lög­reglu­deildum vegna málsins.

„Út frá þeim upp­lýsingum sem við höfum, hefur deildin gripið til var­úðar­ráð­stafana til að auka öryggi og fjölga starfs­mönnum í nokkra daga, þar á meðal 4. mars,“ segir enn fremur í til­kynningu FBI en umræða á netinu um mögulega árás á morgun virðist vera að færast í aukana.