Spán­verjar gengu í dag til kosninga í þriðja sinn á fjórum árum. Greint er frá því á El Mundo að tveimur klukkustundum fyrir lokun kjörstaða hafi kjörsókn verið 9,5 prósentum meiri en hún var í síðustu þingkosningum árið 2016. Kjör­sókn var þá 60,75 prósent en var á sama tíma árið 2016 51,21 prósent.

Mesta kjör­sókn var í Kata­lóníu, þar sem hún var nærri 64 prósent og 18 prósentu­stigum meiri en árið 2016, á sama tíma. Þá hefur einnig mælst aukin kjör­sókn í Madrid, Ara­gón og La Rioja. Kjör­stöðum lokaði klukkan 20, að staðar­tíma, sem var klukkan 18 að ís­lenskum tíma, utan Kanarí­eyja, sem loka kjör­stöðum klukku­stund síðar, eða núna klukkan 19. Búist er við því að niður­stöður kosningar liggi fyrir í kvöld og að fyrstu tölur liggi fyrir um klukkan 19 að íslenskum tíma.

Fyrsta skipti í áratugi sem öfgahægriflokkur kemst á þing

Talið er að hægri-öfga­flokkur muni ná nægum at­kvæða­fjölda til að ná sætum á þingi og geti mögulega í sam­starfi við í­halds­menn komið Sósíal­istum frá völdum. Nái hægri­öfga­flokkurinn að komast á þing verður það í fyrsta skipti í ára­tugi sem slíkur flokkur situr á þingi á Spáni, eða allt frá því að valda­­tíð Francos lauk á áttunda ára­tugnum.

Sósíalistaflokkur for­sætis­ráð­herra Spánar, Pedro Sánchez, mun að öllum líkindum fá flest at­kvæði en lík­lega ekki nægi­lega mörg til að tryggja þeim þannig meiri­hluta á þingi að þau geti sjálf myndað ríkis­stjórn. Sánchez kallaði til kosninga eftir að bæði að­skilnaðar­sinnar frá Kata­lóníu og hægri flokkar sem sitja í stjórnar­and­stöðu höfnuðu til­lögu hans til fjár­laga.

Í um­fjöllun AP News um kosningarnarsegir að á að­eins stuttum tíma hafi pólitískt lands­lag á Spáni breyst mjög mikið og farið frá því að vera tveggja flokka kerfi í fimm flokka kerfi. Það megi rekja til niður­skurðar í kjöl­far efna­hags­hrunsins, að fólk hörfi í meira mæli frá hefð­bundnu flokka­kerfi og stjórn­málum og ris öfga­hægri pópul­isma. Þar segir einnig að fyrir um viku síðan hafi kannanir sýnt að um þriðjungur hafi ekki á­kveðið hvað þau hafi ætlað að kjósa.

Sósíalistar þurfi að reiða sig á stuðning annarra

Flokkur sem berst á móti niður­skurði og kallar sig „Podemos“ eða „Við getum“ hefur boðist til þess að mynda ríkis­stjórn með Sósíal­istum en til að mynda starf­hæfa ríkis­stjórn gætu þau þurft að reiða sig á stuðning nokkurra lítilla flokka, svo sem að­skilnaðar­sinna frá Kata­lóníu. Fyrr í vikunni var greint frá því að í fyrsta skipti gerðu kosninga­spár ráð fyrir því að dýra­vel­­ferðar­­flokkurinn Pacma muni ná þing­­sætum þar í fyrsta skipti en flokkurinn hefur statt og stöðugt bætt við sig fylgi að undan­­förnu.

Á hægri vængnum eru þrír flokkar sem keppast um að vera í leið­toga­hlut­verki. Það er hægri í­halds­flokkurinn Popular Par­ty og hægri­miðju-borgara­flokkurinn og öfga­hægri Vox flokkurinn sem hefur talað gegn inn­flytj­endum. Leið­togi flokksins, Santiago Abas­cal, sagði við fjöl­miðla í Madrid í dag að „milljónir Spán­verja ætluðu að kjósa með von, þau ætluðu að gera það án ótta við eitt­hvað eða ein­hvern“.