Spánverjar gengu í dag til kosninga í þriðja sinn á fjórum árum. Greint er frá því á El Mundo að tveimur klukkustundum fyrir lokun kjörstaða hafi kjörsókn verið 9,5 prósentum meiri en hún var í síðustu þingkosningum árið 2016. Kjörsókn var þá 60,75 prósent en var á sama tíma árið 2016 51,21 prósent.
Mesta kjörsókn var í Katalóníu, þar sem hún var nærri 64 prósent og 18 prósentustigum meiri en árið 2016, á sama tíma. Þá hefur einnig mælst aukin kjörsókn í Madrid, Aragón og La Rioja. Kjörstöðum lokaði klukkan 20, að staðartíma, sem var klukkan 18 að íslenskum tíma, utan Kanaríeyja, sem loka kjörstöðum klukkustund síðar, eða núna klukkan 19. Búist er við því að niðurstöður kosningar liggi fyrir í kvöld og að fyrstu tölur liggi fyrir um klukkan 19 að íslenskum tíma.
Fyrsta skipti í áratugi sem öfgahægriflokkur kemst á þing
Talið er að hægri-öfgaflokkur muni ná nægum atkvæðafjölda til að ná sætum á þingi og geti mögulega í samstarfi við íhaldsmenn komið Sósíalistum frá völdum. Nái hægriöfgaflokkurinn að komast á þing verður það í fyrsta skipti í áratugi sem slíkur flokkur situr á þingi á Spáni, eða allt frá því að valdatíð Francos lauk á áttunda áratugnum.
Sósíalistaflokkur forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, mun að öllum líkindum fá flest atkvæði en líklega ekki nægilega mörg til að tryggja þeim þannig meirihluta á þingi að þau geti sjálf myndað ríkisstjórn. Sánchez kallaði til kosninga eftir að bæði aðskilnaðarsinnar frá Katalóníu og hægri flokkar sem sitja í stjórnarandstöðu höfnuðu tillögu hans til fjárlaga.
Í umfjöllun AP News um kosningarnarsegir að á aðeins stuttum tíma hafi pólitískt landslag á Spáni breyst mjög mikið og farið frá því að vera tveggja flokka kerfi í fimm flokka kerfi. Það megi rekja til niðurskurðar í kjölfar efnahagshrunsins, að fólk hörfi í meira mæli frá hefðbundnu flokkakerfi og stjórnmálum og ris öfgahægri pópulisma. Þar segir einnig að fyrir um viku síðan hafi kannanir sýnt að um þriðjungur hafi ekki ákveðið hvað þau hafi ætlað að kjósa.
Sósíalistar þurfi að reiða sig á stuðning annarra
Flokkur sem berst á móti niðurskurði og kallar sig „Podemos“ eða „Við getum“ hefur boðist til þess að mynda ríkisstjórn með Sósíalistum en til að mynda starfhæfa ríkisstjórn gætu þau þurft að reiða sig á stuðning nokkurra lítilla flokka, svo sem aðskilnaðarsinna frá Katalóníu. Fyrr í vikunni var greint frá því að í fyrsta skipti gerðu kosningaspár ráð fyrir því að dýravelferðarflokkurinn Pacma muni ná þingsætum þar í fyrsta skipti en flokkurinn hefur statt og stöðugt bætt við sig fylgi að undanförnu.
Á hægri vængnum eru þrír flokkar sem keppast um að vera í leiðtogahlutverki. Það er hægri íhaldsflokkurinn Popular Party og hægrimiðju-borgaraflokkurinn og öfgahægri Vox flokkurinn sem hefur talað gegn innflytjendum. Leiðtogi flokksins, Santiago Abascal, sagði við fjölmiðla í Madrid í dag að „milljónir Spánverja ætluðu að kjósa með von, þau ætluðu að gera það án ótta við eitthvað eða einhvern“.