„Bílasala hefur farið minnkandi á Íslandi síðan 2018,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri bílaumboðsins Brimborgar, um nýlega þróun í bílaleiguiðnaðinum. „Það voru alltaf að bætast við færri nýlegir bílar í flotann.“

Það sem af er maí og í apríl hafa samkvæmt tölum frá Bílgreinasambandi Íslands verið nýskráðir mun fleiri bílaleigubílar en í sömu mánuðum á síðasta ári. Frá 1. til 21. maí á þessu ári voru skráðir 546 bílaleigubílar en allan maímánuð í fyrra voru þeir 47 talsins. Á milli áranna 2019 og 2020 var gríðarleg fækkun í skráningum bílaleigubíla í maí. Árið 2019 voru þeir 1.274.

Í apríl á þessu ári voru 260 bílaleigubílar nýskráðir en í sama mánuði í fyrra voru þeir 30 talsins. Árið 2019 voru þeir 614. Langflestir nýskráðra bíla á þessu ári, eða 347 talsins, eru af tegundinni Kia og næstflestir eru frá Toyota.

Alls voru skráðir 2.074 bílaleigubílar á Íslandi árið 2020, en árið á undan voru þeir tæplega 4.900 talsins. Það sem af er þessu ári hafa verið nýskráðir rétt um 1.100 bílaleigubílar. Egill segir þó lítið mark takandi á samanburði við árið 2020 þar sem þá hafi leiguiðnaðurinn verið „steindauður“. Aðallega hafi Íslendingar þá verið að leigja bifreiðar til styttri tíma. „Við höfum meira verið að bera okkur saman við 2019,“ segir hann.

Að sögn Egils var brugðist við lægðinni sem fylgdi í kjölfar kóróna­veirufaraldursins með því að taka minnstu leigubifreiðarnar úr umferð. Ákveðið var að minnka bílaflotann og leggja aðaláherslu á leigu meðalstórra fólksbíla og jeppa. „Þetta hefur skilað sér í hærra verði í evrum og í krónum út af genginu. Sömuleiðis hefur verðið hækkað vegna þess að við erum að meðaltali með stærri bíla í útleigu.“

Egill segir að minnkun flotans árið 2020 hafi leitt til þess að um helmingur bílanna var seldur. Íslendingar hafi verið duglegir við að kaupa notuðu bifreiðarnar, enda voru utanlandsferðir nánast útilokaðar það ár og frekar viðleitni til ferðalaga innanlands. „Þetta gerðist hjá nánast öllum bílaleigunum. Við komum okkur niður í ákveðinn grunn og svo erum við núna að kaupa nýja bíla inn í þessar nýju forsendur. Fólk er að leigja stærri bíla á hærra verði og gjarnan í lengri tíma en síðustu ár.“

Verðhækkunina segir Egill stjórnast af skorti á leigubifreiðum sem varð til eftir að svo margir bílar seldust 2020. „Skortur á bílaleigubílum er alþjóðlegt vandamál og ekki auðvelt að segja hvernig það verður leyst.“