Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra eru meðal leiðtoga Atlantshafsbandalagsins sem funda í höfuðstöðvum NATÓ í Brussel í dag. Er þetta fyrsti fundur Katrínar erlendis í meira en ár.

Meðal þeirra málefna sem tekin verða fyrir á fundinum eru tillögur Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATÓ, um að styrkja tengsl aðildarríkjanna og efla pólitískt samstarf þeirra á milli. Jafnframt er áætlað að rædd verði ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og ný netöryggisstefna.

Þetta er fyrsti fundur Joe Biden Bandaríkjaforseta með Atlantshafsbandalaginu en hann hefur lýst yfir vilja til að styrkja bandalagið á ný eftir nokkurn kala sem varð í samskiptum Bandaríkjanna við það á stjórnartíð Donalds Trump.

Leiðtogar sambandsins hafa að mestu stutt ákvörðun Bidens um að draga bandarísk herlið burt frá Afganistan. Málefni Afganistans hafa verið á borði Atlantshafsbandalagsins frá því að Bandaríkin virkjuðu fimmtu grein stofnsáttmála þess eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York fyrir nærri tuttugu árum.

Einnig er gert ráð fyrir að málefni Kína verði tekin fyrir á fundinum. Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi að rætt yrði um Kína, þar á meðal í tengslum við aukin áhrif landsins á Kyrrahafi og Indlandshafi og á vettvangi stafræns öryggis og upplýsingahernaðar. „Kína á eftir að gegna stærra hlutverki í sameiginlegu yfirlýsingunni en við höfum nokkurn tímann séð áður.“