„Það hefur verið mikil aukning í heimilisofbeldisviðtölum síðustu mánuði, nánast hundrað prósenta aukning,“ segir Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur. Hann rekur verkefnið Heimilisfrið þar sem fólki sem beitir heimilisofbeldi er veitt meðferð. Á fyrstu þremur mánuðum ársins voru veitt að jafnaði 62 viðtöl á mánuði hjá Heimilisfriði, en síðustu þrjá mánuði hafa þau verið vel yfir hundrað á mánuði.

Hann segir aukninguna að hluta mega rekja til kórónaveirufaraldursins en að aðrir þættir spili inn í. „Það hefur verið mikil umræða um heimilisofbeldi undanfarið, ásamt því að við höfum verið sýnilegri,“ segir Andrés. „Vonandi er stærri hluti af menginu að skila sér til okkar, maður vonar það,“ bætir hann við.

„Við sem sinnum þessum málum finnum fyrir auknum þunga í þeim málum sem til okkar koma. Vandamálin virðast þyngri og það er meira um undirliggjandi vandamál, til að mynda aukinn kvíða,“ segir Andrés.

Flestir þeirra sem leita til Heimilisfriðar eru einstaklingar sem hafa beitt maka sinn ofbeldi, um 75 prósent skjólstæðinga eru karlar og 25 prósent konur. Öll kyn segir Andrés velkomin og að til séu úrræði fyrir alla sem vilji hætta að beita hvers konar ofbeldi.

Í aðgerðaáætlun ofbeldisvarnanefndar, sem kynnt var á fundi nefndarinnar í síðustu viku, kemur fram að unnið hafi verið að kortlagningu þeirrar meðferðar sem í boði er fyrir gerendur, hana veiti Heimilisfriður. Viðtölin séu niðurgreidd af félagsmálaráðuneytinu, en hvert viðtal kostar einungis 3.000 krónur fyrir skjólstæðinginn.

Í áætluninni kemur einnig fram að heildarúttekt hafi verið gerð á starfsemi Heimilisfriðar á árunum 2013 og 2014 og að niðurstöður hafi sýnt að meðferðin skilaði árangri, „þó meiri í tengslum við líkamlegt ofbeldi en andlegt ofbeldi“.

Aðspurður hvort slíkt hið sama eigi við nú, segist Andrés vona að breytingar hafi orðið á, umræðan um alvarlegar afleiðingar andlegs ofbeldis hafi hlotið meiri hljómgrunn síðustu ár. „Við höfum lagt gríðarlega áherslu á það að efla meðferð fyrir þá sem beitt hafa andlegu ofbeldi og ég vona að það hafi skilað sér,“ segir hann.

„Menn eru líka að átta sig á alvarleika andlegs ofbeldis fyrir lýðheilsu fólks og það er alltaf verið að rannsaka það betur og betur, niðurstöðurnar sýna að andlegt ofbeldi getur valdið alveg jafn miklum skaða og líkamlegt ofbeldi og í sumum tilfellum meira langvarandi skaða,“ segir Andrés og bætir við að börn sem alist upp við andlegt ofbeldi verði alltaf fyrir skaða, ekki síður en þau sem búi við líkamlegt ofbeldi.

Þá segir Andrés að þrátt fyrir aukna aðsókn í þjónustu til Heimilisfriðar sé vel hægt að taka á móti öllum þeim sem sækist eftir þjónustunni. Vel sé hugað að öllum sóttvörnum og að tveggja metra reglunni sé fylgt.