Þetta kemur fram í skýrslunni Valdbeiting á vinnustað, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Félagsmálaráðuneytið. Undirtitill þessarar umfangsmiklu skýrslu, sem kom út fyrr í mánuðinum, er – rannsókn á algengi og eðli eineltis og áreitni á íslenskum vinnumarkaði. Þar er MeToo sérstaklega tekið fyrir.


Þátttakendur voru spurðir hvort þeir teldu að MeToo- hreyfingin hafi haft jákvæð eða neikvæð áhrif á íslenskt samfélag en meirihluti þátttakenda (71,5%) taldi áhrifin mjög eða frekar jákvæð. Þá voru konur líklegri en karlar til að telja hreyfinguna hafa haft jákvæð áhrif (tæp 81% á móti 62,6%).


Einn af hverjum 10 taldi að hreyfingin muni koma til með að hafa neikvæðar afleiðingar á íslenskt samfélag. Þar má einnig sjá að hlutfallslega flestir þátttakenda í yngsta aldurshópnum höfðu jákvætt viðhorf til hreyfingarinnar. Fólk með háskólamenntun var líklegra en þeir sem ekki höfðu lokið háskólaprófi til að telja að áhrif hreyfingarinnar komi til með að vera jákvæð í íslensku samfélagi.

Sögðu frá áreitni


Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu sagt frá áreitni eða ofbeldi í kjölfar MeToo en rúm 10% þátttakenda hafði gert slíkt. Alls höfðu um 17% kvenna og 4% karla sagt frá áreitni eða ofbeldi í kjölfar þess að MeToo-umræðan fór að vera áberandi. Þátttakendur með fötlun eða skerðingar voru töluvert líklegri en þeir sem ekki eru með skerðingar til að hafa sagt frá áreitni eða ofbeldi í kjölfar umræðunnar (19% á móti 10%).


Aðspurðir um hvort þeir hefðu breytt einhverju í eigin hegðun í kjölfar MeToo-umræðunnar svöruðu tæplega 18% þátttakenda því að þeir hefðu gert það. Þátttakendur á aldrinum 26-35 ára höfðu hlutfallslega flestir breytt hegðun sinni í kjölfar umræðunnar en elsti aldurshópurinn (56-68 ára) var síst líklegur til að hafa gert slíkt.