Nýjustu mælingar og gögn gefa til kynna að á síðustu dögum hafi kviku­flæði vaxið við eld­gosið í við Fagra­dals­fjall og sé nú nærri 13 rúm­metrum á sekúndu sam­kvæmt upp­lýsingum sem birtar voru í gær. Greint er frá þessu í til­kynningu frá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra en Vísinda­ráð al­manna­varna fundaði í dag.

Þar segir einnig að flatar­mál hraunsins sé nú 1,78 fer­kíló­metrar og rúm­mál hraunsins sem runnið hefur mælist 30.7 milljónir rúm­metra.

Auknu kviku­flæði fylgir aukið út­streymi eld­fjallagasa.

Vegna aukinnar kviku­stróka­virkni í eld­gosinu undan­farið þeytast kviku­strókar 100 til 300 metra upp úr gígnum og gjalli og hraun­slettum rignir niður um­hverfis gíginn og ræður vind­átt hvert það berst.

„Þeim mun hærri sem kviku­strókarnir eru þeim mun lengra berast þessi efni. Ef kviku­strókar ná 300 metra hæð og vindur er 13-15 metrar á sekúndu má búast við hraun­bombum (molar/slettur sem eru meira en 6 senti­metrar í þver­mál) í allt að 600 metra fjar­lægð frá gígnum,“ segir í til­kynningu al­manna­varna.

Glóandi sletturnar geta svo kveikt í mosa og gróðri sem þau lenda á. Auk þess er í reyknum frá þessu mikið af kol­món­oxíði (CO) sem er eitrað fólki en það mælist stundum svo mikið í gróður­bruna hjá gosinu að slökkvi­liðs­menn myndu nota reykköfunar­tæki ef þeir ætluðu inn á svæðið.

Fjölmargir lögðu leið sína að gosinu í gær, 11. maí, þegar myndin var tekin.
Fréttablaðið/Anton Brink

Skjálftavirknin lítil

Þá kemur fram í til­kynningu að skjálfta­virkni hafi verið lítil að undan­förnu og að mestu bundin við svæði í kringum Litla-Hrút. Nokkur skjálfta­virkni hefur verið vestur af Kleifar­vatni og við Sund­hnúka og Þor­björn, hún er talin stafa af spennu­hreyfingum í jarð­skorpunni.