Dómsmálaráðherra segir að rökstuddur grunur um glæp verði að vera á bak við víðtækari heimildir til að fylgjast með fólki hér á landi eins og boðað er í nýju frumvarpi en drög að því hefur verið kynnt á vef stjórnvalda.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra segir í viðtali á Fréttavaktinni að í drögum að frumvarpi um breytt lögreglulög og víðtækari eftirlitsheimildir lögreglu með fólki, að skilyrði sé að rökstuddur grunur sé um þátttöku viðkomandi í glæp.

Verður að vera rökstutt mat - Lögreglan sjálf meti það

Misskilningur sé um að svo sé ekki en það verði mat lögreglunnar sjálfrar á bak við ákvörðun um að fylgjast með einstaklingum, s.s. með myndatökum, myndböndum, eftirlitsbúnaði og öðru. Í frumvarpinu eru engin tímamörk á hve lengi má fylgjast með einstaklingi hér á landi verði þetta frumvarp að lögum.

Víðtækar heimildir

Drögin að frumvarpinu um breytingu á lögreglulögum er nú í samráðsgáttinni, og kallað eftir umsögnum. Þar eru lagðar til mjög víðtækar heimildir rannsóknarlögreglu til að safna gögnum um einstaklinga, án þeirra vitundar eða tímatakmarka.

Aukinn vopnaburður og skýrslur Ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi kalli á slíkar breytingar á heimildum lögreglu, segir Jón og viðurkennir að hér kallist á vernd fyrir borgaranna en líka minni réttur á friðhelgi einkalífsins.

"Hér á landi hefur lögregla langtum minni rannsóknarheimildir en lögregla í nágrannalöndunum,“ segir Jón.

Ekki sé hætt á misbeitingu valds hjá lögreglu við að fylgjast með fólki en sérstök eftirlitsnefnd með lögreglu var sett á fót fyrir fáeinum árum sem Jón ítrekar að muni hafa lykilhlutverki að gegna. Þó segir í frumvarpinu að sú nefnd verði ekki virkur þátttakandi í forvirkum rannsóknum lögreglu eins og eftirliti með mönnum sem þykja mögulega tengjast glæpum.

Ráðherra segir að lögregla meti sjálf hvort rökstuddur grunur sé um að viðkomandi brjóti mögulega af sér. Matið þarf þó ekki að bera undir neinn og ekki eftirlitsnefndina fyrirfram, miðað við texta frumvarpsdrögunum.