Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, segir ákvörðun Vinstri grænna um að vera ekki í meirihluta í Reykjavík auka líkur á hægri meirihluta, og þar með minnka líkur á vinstri meirihluta.

Líf Magneudóttir tilkynnti um þessa ákvörðun í færslu á Facebook áðan, og nefndi sérstaklega dræma kosningu flokksins.

„Þetta er ekkert til að einfalda stjórnarmyndun, allavega á vinstri vængnum,“ segir Eiríkur í samtali við Fréttablaðið. Hann telur að þónokkrar sviðsmyndir hafi verið í boði þar sem Vinstri græn væru í meirihluta. Þó nefnir hann að í einhverjum þeirra geti flokkur eins og Sósíalistaflokkurinn komið í staðinn fyrir Vinstri græn.

Þá velti Eiríkur fyrir sér hvað Líf væri raunverulega að segja í tilkynningu sinni, hvort flokkurinn væri hreinlega að útiloka að styðja við meirihluta, og skipa sjálfan sig í stjórnarandstöðu. Hann sagði tilkynninguna athyglisverða, og í raun væri ekki um algengt uppátæki að ræða.

Hann telur dræma kosningu flokksins helstu ástæðu þess að þessi ákvörðun hafi verið tekin. Og þá segir hann ekki óalgengt að flokkar vilji byggja sig upp í stjórnarandstöðu. „Fyrst fremst held ég að þau séu að líta í eigin barm og að markmiðið sé frekar að byggja flokkinn upp í stjórnarandstöðu.“ segir Eiríkur.