Lyfja­stofnun segir við­búið að yngri ein­staklingar upp­lifi auka­verkanir eftir bólu­setningu með mRNA-bólu­efni þar sem ungir fá oftar en ekki sterkari ó­næmis­við­brögð eftir bólu­setningu heldur en þeir sem eru eldri. Unnið er nú að því að bólu­setja ung­menni á aldrinum 12 til 15 ára gegn Co­vid.

„Al­gengar þekktar auka­verkanir gera oft vart við sig í kjöl­far bólu­setningar með mRNA-bólu­efni hjá ungum ein­stak­lingum, sér­stak­lega eftir að seinni skammtur er gefinn. Þessu geta fylgt ó­þægindi en oftast ganga auka­verkanir til baka á 2-3 dögum,“ segir í til­kynningu á vef Lyfja­stofnunar.

Verkur eða bólga á stungustað algengast

Flestir upp­lifa eina eða fleiri af al­gengustu auka­verkununum en þær al­gengustu eru verkur eða bólga á stungu­stað, sem um 80 prósent upp­lifa sam­kvæmt klínískum rann­sóknum, þreyta, sem um 60 prósent upp­lifa, og höfuð­verkir, sem um 50 prósent upp­lifa.

Um 30 prósent fá vöðva­verki eða kulda­hroll, 20 prósent lið­verki, 10 prósent hita, og 10 prósent fá bólgu á stungu­stað og í hand­legg. Þá fá ein­hverjir ó­gleði og niður­gang en þess er ekki getið í prósentum hversu margir fá þá auka­verkun.

„Þegar líkaminn bregst við með þessum hætti er það merki um að hann er að undir­búa ó­næmis­kerfið til að verjast veirunni og veita vörn gegn al­var­legum veikindum. Það er ein­stak­lings­bundið hvernig líkaminn bregst við bólu­efnum, þeir sem ekki upp­lifa auka­verkanir eða verða veikir eftir bólu­setningu eru líka vel varðir gegn veirunni.“

Yfir­leitt ganga ein­kennin til baka á ör­fáum dögum en ef það gerist ekki, eða ef fólk upp­lifir önnur ein­kenni sem þau gruna að tengjast bólu­setningu, ætti fólk að leita til læknis. Heil­brigðis­starfs­fólki er skylt að til­kynna grun um al­var­legar, nýjar og ó­þekktar auka­verkanir til Lyfja­stofnunar.