Fimm þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að samræma greiðsluþátttöku á gleraugum og heyrnartækjum barna. Ríkið niðurgreiðir heyrnartæki að fullu en niðurgreiðslur gleraugna eru takmarkaðar.

Niðurgreiðsla gleraugna getur verið allt að 7.500 krónur á gler miðað við styrk og 9.000 krónur ef um er að ræða sterk sjónskekkjugler. Umgjarðir, sundgleraugu og hreyfingargleraugu eru ekki niðurgreidd og börn 9 til 17 ára eiga aðeins endurgreiðslurétt annað hvert ár.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er langalgengast að foreldrar fái 4.000 krónur niðurgreiddar á hvert gler. Það er 8.000 krónur af gleraugum sem kosta yfirleitt á bilinu 30 til 40 þúsund krónur. Hafi reglurnar ekki breyst síðan árið 2005. Það ár var niðurgreiðslan lækkuð um 1.000 krónur á gler og hefur verið föst krónutala síðan þá og ekki fylgt verðlagi. Hafa endurgreiðslurnar sem hlutfall af heildarkostnaði því sífellt lækkað með hækkandi verði gleraugna.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, fyrsti flutningsmaður tillögunnar, segir að málið hafi ekki verið rætt í þinginu en á ekki von á að það verði mjög umdeilt. Reglurnar þurfi að uppfæra og laga. „Ég held að flestum þyki þetta vera þarft réttlætismál,“ segir hún.