Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fundar nú í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Bjarni Bjarnason forstjóri kemur til með að óska eftir því að stíga tímabundið til hliðar á meðan mál sem tengjast uppsögn Bjarna Más Júlíussonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar (ON), eru tekin til skoðunar og „úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins“. Bjarni sendi tilkynningu þess efnis á mánudaginn síðastliðinn.

Sjá einnig: Bjarni stígur til hliðar

Stuttu eftir yfirlýsingu Bjarna sendi Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitunnar, frá sér yfirlýsingu þar sem hún greinir frá því að ósk Bjarna verði tekin fyrir á næsta stjórnarfundi, sem nú fer fram. Síðasta föstudag lýsti Brynhildur því yfir að stjórn Orkuveitunnar bæri fullt traust til Bjarna. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarmaður, sagði þó á Facebook-síðu sinni að það væri full snemmt fyrir slíkar yfirlýsingar.

Óhætt er að segja að Orkuveitan hefur verið í kastljósi fjölmiðla eftir að tilkynnt var um að Bjarna Má Júlíussyni — þáverandi framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, sem er dótturfélag Orkuveitunnar — hafði verið sagt upp störfum fyrir „óviðunandi framkomu“ í garð kvenkyns starfsmanna fyrirtækisins. Skömmu síðar var tilkynnt að Þórður Ásmundsson, forstöðumaður tækniþróunar hjá Orku náttúrunnar, myndi taka við stöðu Bjarna Más. Sú tilkynning var fljótlega dregin til baka þegar upp kom að Þórður hafði verið sakaður um alvarleg kynferðisbrot áður en hann hóf störf hjá ON. Berglind Rán Ólafsdóttir hefur síðan tekið við sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.

Loks barst fjölmiðlum tilkynning skömmu fyrir tíu á mánudagskvöld frá Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra fjármála hjá Orkuveitunni, þar sem hann staðfestir fyrirspurnir um að hafa verið áminntur fyrir óviðeigandi hegðun á árshátíð fyrirtækisins 2015. Hafa því þrír háttsettir stjórnendur innan samsteypu Orkuveitunnar verið sakaðir um kynferðislega áreitni í einhverri mynd á síðastliðinni viku.