Framlög stjórnvalda til ýmissa fjárfestinga aukast um ríflega 36 milljarða króna á næsta ári frá fjárlögum yfirstandandi árs. Stendur til að setja um 111 milljarða króna í fjárfestingar sem telst hátt í sögulegu samhengi.

Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala en gert er ráð fyrir tæplega 12 milljarða króna framlagi til framkvæmdanna árið 2021.

Fjárfestingar- og uppbyggingarátak stjórnvalda nær hámarki á næsta ári.
Mynd/Stjórnarráðið

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að aukningin milli ára skýrist að miklu leyti af mótvægis ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og þeirri stefnumörkun stjórnvalda að styðja við hagkerfið þar til atvinnulífið hefur tekið við sér.

Alls nemur umfang fjárfestingar- og uppbyggingarátaks stjórnvalda á árinu 2021 um 27,2 milljörðum króna. Er átakið hluti af viðbrögðum stjórnvalda við áhrifum heimsfaraldursins.

Þróun fjárfestinga hjá hinu opinbera.
Mynd/Stjórnarráðið

Uppsöfnuð fjárfestingaþörf til staðar áður en faraldurinn skall á

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2021 til 2025 segir að eitt af megináherslum stjórnvalda sé að drífa viðspyrnu efnahagslífsins áfram af verðmætum störfum og fjárfestingum.

Áhersla verði lögð á menntun, rannsóknir, nýsköpun, innviði og umhverfis- og loftslagmál. Markvissar umbætur verði gerðar á umgjörð efnahags- og atvinnumála til að auka hagsæld til lengri tíma.

Fram kemur í fjármálaætluninni að í upphafi kjörtímabilsins hafi verið ljóst að ráðast þyrfti í verulegar fjárfestingar enda hafi safnast upp umtalsverð innviðafjárfestinga- og viðhaldsþörf.