Tíðni eftirlits með blóðtökubæjum er mun hærra en í öðru hrossahaldi en minna er um alvarleg frávik. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá MAST um eftirlit með blóðmerahaldi.

Stofnunin segir að þrátt fyrir fá frávík sé ástæða til að auka eftirlit með blóðtökunni, sérstaklega í ljósi þeirra alvarlegu frávika sem komu fram í heimildarmynd svissnesku dýraverndarsamtakanna Animal Welfare Foundation.

„Slík frávik hafa ekki sést við eftirlit Matvælastofnunar sem bendir til þess að þau séu fremur fátíð en auk þess má ætla að eftirlitið sem slíkt hafi fælingarmátt gagnvart illri meðferð. Því er tilefni til að auka eftirlit Matvælastofnunar með blóðtökunni, þrátt fyrir góðar eftirlitsniðurstöður á seinni árum.“

Miða við styrk blóðrauðu en ekki blóðmagn

Mikið hefur verið fjallað um blóðmagn íslenska hestsins vegna blóðtöku á fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu. Hátt í fimm lítrar af blóði eru teknir vikulega úr fylfullum hryssum á meðan hormónið eCG, einnig kallað PMSG, finnst í blóði þeirra. Þetta er 14 prósent af heildarblóðmagni ef miðað er við að íslenski hesturinn sé með um 36 til 37 lítra af blóði.

Gagnrýnendur á blóðmerahald telja að blóðmagn íslenska hestsins hafi verið ofmetið og að í raun sé 20 prósent af blóðmagni fylfullra hryssa tekið úr þeim við blóðtöku sem samkvæmt dýraverndarsinnum er algjör yfirkeyrsla.

MAST segir að engar vísbendingar séu um að blóðmagnið sem tekið er sé of mikið, „þar sem ekki koma fram neikvæð áhrif á skilgreinda mælikvarða á heilsu og blóðbúskap hryssnanna.“ Vert er að nefna að engar rannsóknir eru til um blóðmagn íslenska hestsins og er því miðað við styrk blóðrauðu.

Blóðmerahald er óvinsælt meðal almennings eftir að AWF birti myndband frá blóðtöku á íslenskum sveitabæjum.
Grafík: Edda Karitas

Rannsókn sem bæði Ísteka og Matvælastofnun vísa í þegar talað er um að blóðtaka hafi ekki neikvæð áhrif á heilsu blóðmera er frá árinu 1982 og birtist í tímaritinu Frey sem gefið var út af Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi Bænda.

Sömuleiðis hefur MAST frá árinu 2017 gert kröfu um að Ísteka mæli reglulega styrk blóðrauða (hemoglobin) hjá marktæku úrtaki af blóðtökuhryssum fyrir blóðtöku og á blóðtökutímabilinu og skili stofnuninni niðurstöðum þeirra mælinga annar hver ár. Úr þessum gögnum hér fyrir neðan má lesa að blóðtökuhryssur eru við upphaf blóðtökutímabilsins tiltölulega háar í blóðrauða (13,1 – 13,9 g/dL) en styrkur próteinsins lækkar við fyrstu 2-3 blóðtökurnar niður í 10,6 g/dL að meðaltali og helst nokkuð stöðugur eftir það.

„Ekkert bendir til þess að þessi lækkun á blóðrauða komi niður á líðan hryssnanna eða heilbrigði,“ segir MAST í skýrslu sinni.

Velferðareftirlitsmenn og myndavélaeftirlit

Ísteka tilkynnti í desember í fyrra að framvegis yrðu velferðareftirlitsmenn viðstaddir allar blóðtökur úr blóðmerum og myndavélaeftirlit með öllum blóðtökum sem fara fram á haustin.

Fréttablaðið sendi fyrirspurn á Matvælastofnun hvort nógu margir dýralæknar væru til á landinu til að hafa eftirlit með blóðtöku. „Svarið við fyrirspurninni er já,“ sagði Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá MAST og sendi lista yfir dýralækni á Íslandi.

Ekki kemur fram í skýrslu MAST hvort stofnunin muni sjálf skaffa velferðareftirlitsmenn eða sjá um myndavélaeftirlit en Fréttablaðið hefur sent fyrirspurn þess efnis.