Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur undirritað breytingu á reglugerð um veiðar í atvinnuskyni. Samtals verða 1.074 tonnum bætt við þær aflaheimildir sem nú eru í gildi. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Stjórnarráðsins.
„Við breytinguna aukast aflaheimildir til strandveiða um 874 tonn af þorski sem fengust í skiptum fyrir heimildir á makríl á skiptimarkaði, 50 ónýtt tonn sem voru færð frá frístundaveiðum og 150 ónýtt tonn vegna línuívilnunar,“ segir í tilkynningunni.
Hlutfall strandveiða af leyfilegum heildarafla þorsks hækkar um fimm prósent með þessari breytingu. „Þessi ráðstöfun [er] liður í aðgerðum til að festa strandveiðar betur í sessi enda skipta strandveiðar sköpum fyrir margar fjölskyldur í landinu,“ segir í tilkynningunni.
„Einnig hefur matvælaráðaherra komið á þeirri breytingu til hagræðingar fyrir strandveiðisjómenn að Fiskistofa mun sjálfkrafa fella strandveiðileyfi úr gildi þegar strandveiðar verða stöðvaðar með auglýsingu í Stjórnartíðindum,“ segir einnig í tilkynningunni.