Kostnaður hjá embætti Ríkislögreglustjóra var talsvert meiri á árinu sem er að líða en búist var við miðað við fjáraukalögin sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram í gær. En þar er gerð tillaga um 397,5 milljóna króna fjárveitingu til að mæta auknum kostnaði hjá embættinu vegna áhrifa heimsfaraldurs í undirflokki löggæslu í almanna- og réttaröryggi.
Fram kemur í frumvarpinu að útgjöld megi rekja til mikils umfangs verkefna hjá smitrakningarteymi, upplýsingamiðstöð almannavarna og varastöð fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra.
Það þurfti að fjölga starfsfólki hjá almannavarnadeild, auka upplýsingamiðlun til almennings og tryggja órofinn rekstur.
Þá er einnig lögð fram tillaga um að auka fjárveitingu um 271 milljónir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Austurlandi og Neyðarlínunnar til að mæta auknum launakostnaði vegna smitvarna og við smitrakningu.
Þá er einnig gerð tillaga um 43,9 milljóna króna fjárveitingu til Neyðarlínunnar til að mæta kostnaði við uppbyggingu innviða fyrir fjarskipti og rafvæðingu vegna eldgossins við Fagradalsfjall.