Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ærumeiðingar og hótanir í garð fyrrverandi sambýliskonu sinnar.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa, á tímabilinu frá nóvember 2019 til desember 2020, útibúið, birt og dreift Facebook-aðgang og vændisauglýsingu í hennar nafni.

Í auglýsingunni kom fram nafn konunnar, mynd af henni, símanúmer hennar og heimilisfang.

Í ákæru kemur fram að háttsemi mannsins hafi verið móðgandi og smánandi fyrir konuna og falið í sér stórfelldar ærumeiðingar.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa, á sama tímabili og að framan greinir, hótað konunni lífláti og að eyðileggja líf hennar. Sendi hann konunni meðal annars eftirfarandi skilaboð úr síma sínum:

„Þessari mynd af þer verður dreift um víða völl td [...] folk þarf að vita hver þú ert” „Já myndin er að sana að þú ert í 2vinnum”

Samkvæmt ákærunni var háttsemi ákærða til þess fallin að valda konunni ótta um eigið líf, heilbrigði og velferð sína.

Birt eru símtöl úr síma ákærða til konunnar þar sem ákærði gefur til kynna að hann muni koma í heimsókn til hennar.

„Þú mátt alveg búast við mér í heimsókn. Það stoppar mig ekkert þegar ég fer í ham. Ég næ þér hafðu engar áhyggjur.“

Maðurinn játaði brotin skýlaust fyrir dómi og taldi dómari ekki ástæðu til að draga játninguna í efa. Málið var því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu.

Tekið var tillit til þess að maðurinn hafi ekki sætt refsingu áður en tveir mánuðir þóttu hæfilegir og var ákveðið að fresta fullnustu refsingarinnar í tvö ár.