Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í gær um aukaverkanir vegna bólusetninga hafa verið villandi og ýta undir hræðslu.

„Við lítum á þetta sem alvarlegt mál að setja þetta fram með þessum hætti,“ sagði Rúna í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Í gær birtist auglýsing í Morgunblaðinu þar sem fólk var hvatt til að tilkynna aukaverkanir vegna bólusetninga gegn COVID-19 til Lyfjastofnunar en líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær var þessi auglýsing ekki á vegum stofnunarinnar. Í auglýsingunni fylgdi netfang, símanúmer og hlekkur á vefsíðu Lyfjastofnunar ásamt kjörorði Embættis landlæknis „Við erum öll almannavarnir“.

Á auglýsingunni mátti finna lista yfir aukaverkanir sem Rúna segir ýta undir hræðslu. Hluti aukaverkanna á listanum eigi hreinlega ekki við. Rúna bendir á að hægt sé að fylla út eyðublað á vefsíðu Lyfjastofnunar, ef einstaklingar telja sig vera með alvarlegar aukaverkanir vegna bóluefnis, en biðlar til fólks að senda ekki tölvupóst eða hringja.

„Þá koma fram persónugreinanleg gögn sem við viljum ekki fá,“ útskýrir Rúna. Aðspurð segir hún rúmlega þúsund tilkynningar um aukaverkanir hafa borist Lyfjastofnun um aukaverkanir á þessu ári samanborið við 140 tilkynningar í fyrra.

Auglýsingin umtalaða. Ekki er furða að margir töldu auglýsinguna á vegum Lyfjastofnunar eða Embætti landlæknis.
Mynd/Morgunblaðið

Auglýsingin var keypt af auðkonunni Vilborgu Björk Hjaltested í nafni fyrirtækisins Bjuti ehf. Hún sagði í samtali við Vísi að auglýsingin varðaði almannahagsmuni en greindi ekki nánar frá því hvers vegna hún keypti heilsíðuauglýsinguna.