„Við tökum tillit til þessarar ábendingar og reynum að bregðast við þessu. Það eru ákveðnar reglur um þessar auglýsingar og við reynum að bregðast við kvörtunum eins og þessum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við fáum slíka kvörtun,“ segir Viðar Halldórsson, formaður FH, aðspurður um kvörtun sem Hafnarfjarðarbær fékk inn á borð til sín vegna auglýsingaskiltis á svæði FH-inga.

Í kvörtuninni kom fram að íbúi í næsta nágrenni væri að kvarta undan lýsingu og að það væri of stutt á milli flettinga og fól skipulags- og byggingarráð skipulagsfulltrúa bæjarins að ræða málið við FH-inga. „Það koma ákveðnir blossar í sumum auglýsingum og þarna fannst íbúa þetta of mikið. Við reynum að fara neðar með ljósmagnið til að koma í veg fyrir að þetta sé að trufla nágrannanna.“