Safnafólk segir að svara verði hvaðan tillaga um að skipa Hörpu Þórsdóttur þjóðminjavörð hafi komið án þess að Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra auglýsti starfið.

„Þetta er það sem enginn veit en þarf að svara,“ segir Sigurjón B. Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands.

Fram kemur í upptöku sem Fréttablaðið hefur undir höndum frá safnaþinginu að Lilja ræðir að tillaga hafi borist á hennar borð. Hún harmar málið og segir að í ljósi viðbragðanna hefði hún betur staðið öðruvísi að málum.

„Það er óreiða í svörum ráðherra um það hvernig farið var í þessa vegferð,“ segir Sigurjón.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður alþjóðaráðs safna, ICOM, segir að á sáttafundi á mánudag hafi Skúli Eggert Þórðarson ráðuneytisstjóri sagt að auglýsing um stöðu þjóðminjavarðar hafi verið tilbúin í sumar. Síðan hafi verið sveigt af leið.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður alþjóðaráðs safna, ICOM
Fréttablaðið/Ernir

„Hann sagði þetta, að það hefði verið búið að setja upp auglýsingu, við spurðum en það komu engin svör við því hvers vegna hætt var við að birta hana og gefa fólki kost á að sækja um stöðuna,“ segir hún.

„Ég tjáði ráðuneytisstjóra á fundinum að einmitt þetta atriði upplifði safnafólk sem vanvirðingu og sniðgöngu. Þau sögðu að þeim þætti það leitt en engar frekari skýringar voru gefnar,“ segir Ólöf Gerður.

Fréttablaðið hefur í tvo daga beðið svara frá Lilju Alfreðsdóttur við fyrirspurn blaðsins um hvers vegna hún hafi sagt að hún geti ekki afturkallað skipan Hörpu og hvaðan tillaga um skipan Hörpu kom. Svör eru sögð í vinnslu.

Þá hefur Fréttablaðið spurt Hörpu Þórsdóttur hvort hún hafi sjálf gert tillögu um að verða færð til í starfi í stöðu þjóðminjavarðar. Einnig var Harpa spurð hvort hún hefði íhugað að höggva á hnútinn í rammri deilu safnafólks og sérfræðinga vegna málsins með því afþakka skipanina. Ekki hafa borist svör.

Mynd/Kristinn Ingvarsson