Austur­land Lands­virkjun aug­lýsir nú krefjandi verk­efni við upp­setningu hrun­varnar­girðinga við Kára­hnjúka. Sam­kvæmt aug­lýsingunni er verkið afar krefjandi því vinna þarf í miklum bratta og grafa í bæði laus og föst jarð­lög. Mun þurfa að flytja öll að­föng að staðnum með krana eða þyrlu og öryggis­mál verða í fyrir­rúmi. Sér­hæfðrar þekkingar verður krafist í út­boðs­gögnum.

„Grjót­hrun gæti sannar­lega verið vanda­mál, ef ekki væri passað upp á að koma í veg fyrir það,“ segir Ragn­hildur Sverris­dóttir, for­stöðu­maður sam­skipta og upp­lýsinga­miðlunar Lands­virkjunar. Um sé að ræða við­halds­verk­efni, endur­nýjun fyrri hrun­varna sem hafi verið settar upp við byggingu stíflunnar árin 2003 til 2007.

Ragn­hildur segir þetta gert til að koma í veg fyrir að laust grjót hrynji úr Fremri-Kára­hnjúk niður á að­komu­veginn að stíflu­mann­virkjunum.
„Þetta eru hrun­varnar­girðingar, sem grípa hrunið sem verður þarna af náttúru­legum or­sökum, það er frost­sprengt grjót og rof sem verður við leysingar,“ segir hún.

Bana­slys varð í gljúfrinu undir Fremri-Kára­hnjúk árið 2004 þegar grjót­hnullungur féll á starfs­mann Arnar­fells, undir­verk­taka Impregilo. Var þetta eitt af þremur bana­slysum við byggingu virkjunarinnar.

Girðingarnar hafa ekki verið hannaðar að fullu en þær verða 150 metra langar og 5 metra háar.

Lands­virkjun býður á­huga­sömum verk­tökum í vett­vangs­ferð á staðinn þriðju­daginn 28. septem­ber en skráningu lýkur á föstu­dag. Tekið er fram að að­stæðurnar séu krefjandi og nauð­syn­legt að vera í góðu líkam­legu á­standi til þess að taka þátt í ferðinni og að vera í góðum göngu­skóm. Lands­virkjun mun ekki bjóða upp á há­degis­mat.