Eftirspurn eftir öndunargrímum á Íslandi virðist vera að færast í aukanna í kjölfar kórónaveirunnar og hafa einhverjar verslanir þegar brugðist við. Í glugga á versluninni Dalur Reykjavík sem staðsett er á Hafnartorgi mátti sjá mynd af öndunargrímu með undirtexta á kínversku.

Starfsfólk verslunarinnar bar öndunargrímu þegar blaðamann Fréttablaðsins bar að garði. Viðskiptavinir sem voru í búðinni báru flestir öndunargrímu ellegar voru að festa kaup í slíkum grip.

Meirihluti af söluvarningi verslunarinnar eru næringar- og snyrtivörur sem búið er til eða framleitt á Íslandi.

Starfsmaður verslunarinnar bar öndunargrímu þegar hún afgreiddi viðskiptavini verslunarinnar.

Tæmdu lagerinn í Byko

Sala á öndunargrímum hefur aukist um allt land síðustu daga og mættu til að mynda hópar kín­verskra ferða­manna í verslun Byko á Breiddinni í Kópa­vogi í gær og keyptu allar öndunar­grímur verslunarinnar af á­kveðinni tegund. Um var að ræða yfir níu­tíu grímur. Þetta stað­festi Kristinn Jóns­son, deildar­stjóri Byko, í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það var gert á­hlaup hérna í gær,“ sagði Kristinn léttur í bragði. „Það komu tveir hópar sem voru að leita sér að öndunar­grímum og þeir bara keyptu hér allt sem við áttum til af þessu.“

Öndunargrímur hafa einnig selst upp í borgum í Kína, Bandaríkjunum og Hong Kong og hefur aukið fjármagn verið sett í framleiðslu á grímunum í Kína.