Það má alveg taka undir að það sé viðeigandi að fagna þessum tímamótum, þessu tíu ára afmæli í viðburðaríkri sögu hússins, með því að semja sérstakt afmælislag þó að það sé farin frekar óhefðbundin leið að því,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, aðspurð út í ákvörðun um að láta semja sérstakt afmælislag í tilefni tíu ára afmælis tónlistarhússins síðar á þessu ári.
Í vikunni var auglýst eftir umsóknum frá krökkum fæddum árið 2011, sama ár og Harpan var opnuð, til að taka þátt í verkefninu en tíu börn verða valin til að taka þátt.
Lagið verður unnið undir verkstjórn Ingibjargar Fríðu Helgadóttur og Sigurðar Inga Einarssonar en þar að auki munu reyndir tónlistarmenn aðstoða krakkana sem koma að verkefninu. Svanhildur segir að það séu ekki gerðar kröfur til þess að umsækjendur séu að læra tónlist en að tónlistaráhuginn verði að vera til staðar.
„Ákvörðun var tekin um að auglýsa þetta tækifæri fyrir tíu ára gömul börn, sem deila afmælisárinu með Hörpunni, til að taka þátt í verkefninu með okkur. Það eru í raun ekki mörg skilyrði sem þarf að fylla, aðeins að hafa áhuga á tónlist,“ segir hún og heldur áfram: „Ef krakkarnir eru í tónlistarnámi er það auðvitað fínt en það er ekki skilyrði sem við setjum.“
Allar tegundir tónlistar í boði
Spurð hvort hugmyndin um tegund lagsins sé fastmótuð, hvort það eigi að vera sinfónískt eða einfalt rokk og ról, segir Svanhildur: „Það er ekkert fastmótað í því og það má þess vegna vera blanda af því. Harpan er nú þannig tónlistar- og viðburðahús að hér fara fram tónlistarviðburðir af öllum tegundum, hvort sem það er rokk og ról, djass, raftónlist eða sinfónía. Að okkar mati er Harpan verðugur heimavöllur fyrir allar tegundir tónlistar og það yrði gaman ef lagið myndi endurspegla það,“ segir Svanhildur létt í lund.
„Þau fá góðan tíma til að semja lagið áður en kemur að að frumflutningi á uppstigningardegi, sem hittir á tíu ára afmæli frá því að Harpan var opnuð almenningi þann 13. maí 2011.“

Svanhildur tekur undir að Harpan hafi staðist væntingarnar sem gerðar voru til hússins enda orðin eitt af einkennismerkjum Reykjavíkurborgar.
„Við viljum þakka eigendum hússins, sem er þjóðin í heild sinni, fyrir stuðninginn og velvildina. Þetta hafa verið um 1.200 til 1.400 viðburðir á ári og telur rúmlega tíu þúsund viðburði frá opnun. Húsið hefur því uppfyllt væntingarnar sem gerðar voru og gott betur en það,“ segir hún og lofar að haldin verði vegleg hátíð.
„Samkvæmt okkar áætlunum hefjast fagnaðarlætin í vor og standa yfir til ársloka með mismunandi listamönnum en við erum auðvitað með plan B, C og D,“ segir Svanhildur um möguleikann á því að heimsfaraldurinn setji strik í reikninginn.