Gögn úr flugrita 737 MAX 8 flugvél Ethiopian Airlines, sem fórst fyrir viku, benda til þess að líkindi séu með flugslysi við strendur Indónesíu í október á síðasta ári. Samgöngumálaráðherra Eþíópíu greindi frá þessu fyrr í dag. BBC greinir frá.

157 fórust í mannskæðu flugslysi í Eþíópíu fyrir viku. Um var að ræða annað flugslys 737 MAX 8 vélar á innan við hálfu ári, en í októberlok á síðasta ári fórst vél flugfélagsins Lion Air með þeim afleiðingum að 189 létust. Í kjölfarið kyrrsetti fjöldi flugfélaga og flugmálayfirvalda um heim allan vélarnar, eða tóku þær tímabundið í rekstri. Icelandair greindi frá því á þriðjudaginn að félagið hefði tekið vélarnar úr rekstri um óákveðinn tíma. 

Niðurstöðu úr flugritum vélar Ethiopian Airlines hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, en Dagmawit Moges, samgöngumálaráðherra Eþíópíu, greindi frá því fyrr í dag að skammtíma niðurstöðu úr göngum flugritans væri að vænta innan þrjátíu daga. 

Þá sagði hann að við fyrstu skoðun á gögnum flugritans hefði verið tekið eftir augljósum líkindum milli flugslysanna tveggja. Gögnin bendi til þess að flughæð vélanna beggja hafi sveiflast hratt. Frekari rannsóknir þurfi þó að gera á gögnum flugritans. 

The Seattle Times greindi frá því í dag að Bandarísk flugmálayfirvöld hefðu gefið út að öryggisúttekt flugvélaframleiðandans Boeing á flugstjórnarkerfi MAX-farþegaþotanna hafi haft nokkra alvarlega galla.