Jóhann Sigurjónsson, læknir á Ísafirði segir augljós mistök af hálfu yfirvalda að hvetja ekki landsbyggðarfólk beinlínis til að dvelja eina nótt nærri Keflavíkurflugvelli áður en lengra er haldið á ferðalaginu.

Fjölskyldan var á leið til Flateyrar frá Keflavík

Þriggja manna fjölskylda voru á leiðinni heim til Flateyrar frá Keflavíkurflugvelli síðastliðinn laugardag þegar bíll þeirra skautaði af veginum í Skötufirði og hafnaði úti í sjó, sennilega vegna mikillar hálku. Íbúar sem áttu leið hjá komu auga á bílinn í sjónum og unnu mikið þrekvirki með að koma sér niður að fjölskyldunni til að ná þeim úr vatninu og hefja endurlífgun.

Ekki var símasamband á slysstað og þurftu því aðilar að færa sig af slysstað til að geta hringt eftir hjálp. Hlynur Snorra­son, yfir­lög­reglu­þjónn á Vest­fjörðum, sagði eftir þetta að brýnt væri að bæta síma­sam­band á Vest­fjörðum.

Konan lést á gjörgæsludeild sama kvöld.

Kallað var eftir aðstoð og voru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar sendar á vettvang ásamt tveimur læknum og köfurum. Þá voru komnir á vettvang um 50 við­bragðs­aðilar, slökkvi­liðs­menn, sjúkra­flutninga­menn, björgunar­sveitar­menn og lög­reglu­menn, auk tveggja lækna frá Ísa­firði. Var fjölskyldan flutt með þyrlu til Reykjavíkur en konan lést á gjörgæsludeild sama kvöld. Maður hennar og ungt barn hafa notið læknisaðstoðar í Reykjavík en ekki hefur verið greint nánar frá líðan þeirra.

Fjölskyldan var nýkomin til landsins og var í nokkurra daga sóttkví og milli fyrst og annarra sýnatöku. Hluti við­bragðs­aðila þurfti því að fara í úr­vinnslu­sótt­kví en öll reyndust neikvæð.

Augljós áhætta að etja fólki í löng ferðalög

Jóhann segir of snemmt að fullyrða um orsakir slyssins en að staðreyndirnar séu þessar: Fólkið var snemma á ferð við mjög slæm akstursskilyrði og hafði verið á ferðinni alla nóttina að undangengnu löngu ferðalagi frá útlöndum.

Hann tekur fram að hann sé ekki að gagnrýna sóttvarnaraðgerðir yfirvalda og að hans mati sé ríkjandi fyrirkomulag með tvöfaldri skimun vel heppnuð og skilvirk leið til að hefta smit frá útlöndum.

„Frá því í haust hef ég haft áhyggjur af þeirri áherslu sem lögð er á að fólk, sem kemur til landsins, komi sér milli landshluta án tafar og án tillits til vegalengda, veðurs, færðar á vegum og ferðatíma áður en fólk lendir í Keflavík. Mér hefur fundist augljós áhættan við að etja fólki í slík ferðalög, en talað fyrir algerlega daufum eyrum fulltrúa yfirvalda í Keflavík,“ segir Jóhann.

„Hunskist á áfangastað, án tafar – Gildir einu hvort það er í Hafnarfirði eða á Ísafirði.“

Hægt að dvelja á hóteli

Jóhann hefur sjálfur ferðast mikið vegna vinnu sinnar og í samtölum við landamæraverði hefur ávallt verið lögð áhersla á að aðilar komi sér sem fyrst á sóttkvíarstað. Í upplýsingabæklingi á landamærunum kemur fram að ef brýna nauðsyn ber til má gista eina nótt í sóttkví nærri landamærastöð áður en ferðast er til endanlegs dvalarstaðar í sóttkví.

Aðspurður sagði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi í gær að það séu hótel sem gefa sér út fyrir það að hýsa fólk sem er í sóttkví. Finna má listann á síðu Ferðamálastofu.

„Það segir í reglum að ef nauðsyn ber til er hægt að eiga nótt annars staðar áður en farið er heim. Það er alveg hugsað fyrir þessu í leiðbeiningunum og reglunum að fólk á að svigrúm að hvíla sig áður en það leggur í svona ferðalag og er nýkomið til landsins,“ sagði Rögnvaldur.

Skimun á Keflavíkurflugvelli.
Fréttablaðið/Valli

Hunskist á áfangastað

Jóhann læknir bendir á að hann hafi í einni ferð sinni í september átt að baki sex til sjö klukkustund ferðalag að bak við komu til Keflavíkur og átti eftir að keyra alla leið til Ísafjarðar. Hann spurði hvort hann mætti gista eina nótt í mannlausu húsnæði sem hann hefði aðgang að í Reykjavík.

„Ég bar fyrir mig þreytu eftir langt ferðalag, veðurspá sem var betri daginn eftir og að ég kysi að keyra í dagsbirtu. Svarið var einfalt og afdráttarlaust: Nei. – Þreyta ökumanns, tími sólarhrings og birtuskilyrði teldust ekki gildar ástæður til að hangsa á leiðinni.“

Sömu svör fékk hann í síðustu viku þegar hann kom til landsins með þriggja ára syni síni. „Hunskist á áfangastað, án tafar – Gildir einu hvort það er í Hafnarfirði eða á Ísafirði.“

Einföld lausn

Hann viðurkennir að hann hafi í öllum ferðum sínum hunsað þessi boð og sofið eina nótt fyrir sunnan og keyrt úthvíldur heim daginn eftir. Það sé hins vegar minniháttar tæknileg hindrun að gefa fólki kost á að skrá áningarstað á covid.is. Með núgildandi takmörkum eru yfirvöld að etja syfjuðum ferðalöngum út í langferðir við misjöfn akstursskilyrði og hóta háum fjársektum ef ekki er fylgt reglum.

Hann segst vilja koma óánægju sinni á framfæri við yfirvöld til þess að vekja einhvern til umhugsunar „og mögulega afstýra viðlíka hryllingi og þeim sem við stóðum frammi fyrir í Djúpinu um helgina – þá myndi ég glaður láta tjarga mig, fiðra og féfletta.“

Hér fyrir neðan má lesa færslu Jóhanns í heild sinni.