Þrjúhundruðasti rampurinn í átakinu Römpum upp Ísland verður vígður í Mjóddinni á morgun, mánudag, klukkan 11:30. Upphaflega hafði staðið til vígja ramp númer 250 á þessum degi en verkefnið er fimmtíu römpum á undan áætlun.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull verkefnisins, munu taka til máls, og þá mun skólahljómsveit Breiðholts og Árbæjar spila tónlist fyrir áhorfendur. Auk þess sem boðið verður upp á veitingar.

„Þetta hefur bara gengið ótrúlega vel,“ segir Haraldur í samtali við Fréttablaðið um málið. „Allir sem hafa komið að þessu hafa staðið sig mjög vel og allir eru mjög ánægðir.“

„Auðvitað hefði átt að vera búið að gera þetta fyrir löngu,“ segir Haraldur, sem tekur þó fram að ríki og sveitarfélög hafi tekið virkan þátt í verkefninu, sem hófst í mars á þessu ári.

Spurður út í hversu marga rampa þurfi í viðbót segir Haraldur það vera einhver þúsund, og þá einungis við um verslanir og veitingastaði. Þá eigi eftir að taka með í reikninginn allt annað húsnæði sem er óaðgengilegt fólki í hjólastól.

Hann segir tvö vandamál blasa við: annars vegar séu það gamlar byggingar sem hafi ekki verið uppfærðar. Það sé talsvert flóknara og dýrara. „Það er samt ekki ómögulegt ef maður hugsar í lausnum.“ segir hann.

Hitt vandamálið sé að enn sé verið að byggja húsnæði án þess að hugað sé almennilega að aðgengi fatlaðra. Haraldur bendir á að í Byggingarreglugerðum sé kveðið á um aðgengismál, en gjarnan sé litið framhjá því. Það sama yrði ekki gert varðandi eldvarnarmál. „Það er svolítið súrt,“ segir Haraldur.