Stofn­fundur Fé­lags sjálf­stæðis­manna um full­veldis­mál hófst í Val­höll klukkan 14 í dag og stendur enn yfir. Að sögn Styrmis Gunnars­sonar, fyrr­verandi rit­stjóra Morgun­blaðsins og ný­kjörins formanns fé­lagsins, er mark­mið fé­lagsins tví­þætt, annars vegar að skapa um­ræðu­vett­vang innan Sjálf­stæðis­flokksins um mál­efni sem tengjast full­veldi þjóðar og hins vegar að halda uppi fræðslu­starf­semi um lykilat­burði í ís­lenskri full­veldis­bar­áttu.

Styrmir segir að nýtt á­kvæði sem kom inn í skipu­lags­reglur Sjálf­stæðis­flokksins fyrir nokkrum árum hafi gert þeim kleift að stofna slíkt fé­lag en stofnunin er háð sam­þykki mið­stjórnar Sjálf­stæðis­flokksins sem hann býst við að liggi fyrir í næstu viku.

„Við teljum að það sé þörf á því að stofna svona fé­lag vegna þess að allt úr liðinni tíð hverfur svona smátt og smátt í hugum fólks frá degi til dags og okkur finnst nauð­syn­legt að rifja upp þessa lykil­þætti í sjálf­stæðis­bar­áttunni og bar­áttunni fyrir yfir­ráðum á auð­lindum okkar,“ segir Styrmir í sam­tali við Frétta­blaðið.

Til­gangurinn með aug­lýsingunni hafi verið að sýna fram á tíðar­andann frá árinu 1942

Fé­lagið vakti tölu­verða at­hygli fyrr í vikunni vegna myndar sem notuð var í aug­lýsingu fyrir fé­lagið en hún birtist fyrst á for­síðu Morgun­blaðsins tólfta júní árið 1942. Að sögn Guð­mundar Odds Magnús­sonar, prófessors við Lista­há­skóla Ís­lands, er mynd­málið bæði fasískt og stalínískt.

„Þetta er klassísk staða sem sést í myndum frá árunum 1930 til 1940 og þeim þjóð­rembingi sem var á árunum fyrir seinni heims­styrj­öld. Þetta sást til dæmis í Þýska­landi, Sovét­ríkjunum og Banda­ríkjunum. Þarna stendur ofur­mennið, „Über­mensch“, fremst. Þetta er fasískt mynd­mál sem einnig til­heyrir stalín­isma. Það er alveg á hreinu,“ sagði Guð­mundur í sam­tali við Frétta­blaðið fyrir helgi.

Að­spurður út í gagn­rýnina segir Styrmir að til­gangurinn með aug­lýsingunni hafi verið að sýna fram á tíðar­andann frá árinu 1942. „Það er skiljan­legt að það sé hægt að mis­skilja þessa mynd eins og hún birtist í aug­lýsingunni en síðan birtist hún aftur í gær, for­síðan öll, og þá skilst það kannski betur í hvaða sam­hengi þetta var sett fram,“ segir Styrmir. „Auð­vitað erum við ekki að stofna hér fé­lag sem ætlar að berjast fyrir nas­isma eða fas­isma eða stalín­isma.“

Forsíða Morgunblaðsins frá árinu 1942.

Stefna á að hefja starfsemi í janúar

Kosið var í stjórn fé­lagsins á fundinum en auk Styrmis sitja í stjórn; Birgir Örn Stein­gríms­son, Er­lendur Borg­þórs­son, Hall­dóra Hjalta­dóttir, Jón Kári Jóns­son, Júlíus Vals­son, Ólafur Hannes­son, Pétur Stefáns­son og Viðar Guð­john­sen.

„Að öllu óbreyttu stefnum við á að hefja þessa funda og fræðslustarfsemi í janúar,“ segir Styrmir að lokum.

Jón Gunnarsson, ritari Sjálfstæðisflokksins.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson
Jónas Elíasson, fyrrverandi prófessor.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson