Stofnfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál hófst í Valhöll klukkan 14 í dag og stendur enn yfir. Að sögn Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og nýkjörins formanns félagsins, er markmið félagsins tvíþætt, annars vegar að skapa umræðuvettvang innan Sjálfstæðisflokksins um málefni sem tengjast fullveldi þjóðar og hins vegar að halda uppi fræðslustarfsemi um lykilatburði í íslenskri fullveldisbaráttu.
Styrmir segir að nýtt ákvæði sem kom inn í skipulagsreglur Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum hafi gert þeim kleift að stofna slíkt félag en stofnunin er háð samþykki miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem hann býst við að liggi fyrir í næstu viku.
„Við teljum að það sé þörf á því að stofna svona félag vegna þess að allt úr liðinni tíð hverfur svona smátt og smátt í hugum fólks frá degi til dags og okkur finnst nauðsynlegt að rifja upp þessa lykilþætti í sjálfstæðisbaráttunni og baráttunni fyrir yfirráðum á auðlindum okkar,“ segir Styrmir í samtali við Fréttablaðið.
Tilgangurinn með auglýsingunni hafi verið að sýna fram á tíðarandann frá árinu 1942
Félagið vakti töluverða athygli fyrr í vikunni vegna myndar sem notuð var í auglýsingu fyrir félagið en hún birtist fyrst á forsíðu Morgunblaðsins tólfta júní árið 1942. Að sögn Guðmundar Odds Magnússonar, prófessors við Listaháskóla Íslands, er myndmálið bæði fasískt og stalínískt.
„Þetta er klassísk staða sem sést í myndum frá árunum 1930 til 1940 og þeim þjóðrembingi sem var á árunum fyrir seinni heimsstyrjöld. Þetta sást til dæmis í Þýskalandi, Sovétríkjunum og Bandaríkjunum. Þarna stendur ofurmennið, „Übermensch“, fremst. Þetta er fasískt myndmál sem einnig tilheyrir stalínisma. Það er alveg á hreinu,“ sagði Guðmundur í samtali við Fréttablaðið fyrir helgi.
Aðspurður út í gagnrýnina segir Styrmir að tilgangurinn með auglýsingunni hafi verið að sýna fram á tíðarandann frá árinu 1942. „Það er skiljanlegt að það sé hægt að misskilja þessa mynd eins og hún birtist í auglýsingunni en síðan birtist hún aftur í gær, forsíðan öll, og þá skilst það kannski betur í hvaða samhengi þetta var sett fram,“ segir Styrmir. „Auðvitað erum við ekki að stofna hér félag sem ætlar að berjast fyrir nasisma eða fasisma eða stalínisma.“

Stefna á að hefja starfsemi í janúar
Kosið var í stjórn félagsins á fundinum en auk Styrmis sitja í stjórn; Birgir Örn Steingrímsson, Erlendur Borgþórsson, Halldóra Hjaltadóttir, Jón Kári Jónsson, Júlíus Valsson, Ólafur Hannesson, Pétur Stefánsson og Viðar Guðjohnsen.
„Að öllu óbreyttu stefnum við á að hefja þessa funda og fræðslustarfsemi í janúar,“ segir Styrmir að lokum.

