Tíu manna sam­komu­bann tekur gildi hér á landi um mið­nætti en þetta kom fram á blaða­manna­fundi ríkis­stjórnarinnar fyrr í dag. Á­kveðið var að grípa til hertra að­gerða vegna fjölda nýrra smita CO­VID-19 en að sögn Katrínar Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra er nauð­syn­legt að grípa strax í taumana.

„Við værum ekki á þeim stað sem við erum á núna nema vegna þess að fólk hefur tekið þátt í þessum að­gerðum með okkur, allt þetta ár. Það hefur sýnt alveg ó­trú­legan skilning og sam­stöðu,“ segir Katrín í sam­tali við Frétta­blaðið en hún segir fólk ef­laust hafa skilning fyrir stöðunni þar sem það er vel upp­lýst.

Lítið þurfi til að koma annarri bylgju af stað

Að­spurð um hvort hún sjái fyrir sér að hægt verði að ná utan um stöðuna á næstu vikum segist hún vona það en mikil­vægt sé að hafa í huga að það þurfi lítið til svo að staðan versni. „Við vitum líka að það þarf ekki nema eitt frá­vik, að ein­hver einn víki frá reglunum til þess að það komi svona bylgju af stað og þess vegna erum við að stíga svona hart inn í.“

„Auð­vitað eru þetta von­brigði fyrir fólk,“ segir Katrín enn fremur og vísar til þess að flestir þurfi nú að endur­skipu­leggja næstu vikur, ekki síst með til­liti til páskanna. Hún segir þó mikil­vægt að muna að við séum í betri stöðu heldur en við vorum í fyrir ári síðan og að ýmsar blikur séu á lofti.

Farið eftir tillögum sóttvarnalæknis að mestu

Breytingarnar sem kynntar voru í dag gilda í þrjár vikur en að sögn Katrínar verður staðan endur­metin reglu­lega og mögu­lega verður hægt að slaka á fyrr. Meðal annarra breytinga sem taka gildi um mið­nætti eru lokun grunn-, fram­halds-, og há­skóla fram til 1. apríl en leik­skólar verða á­fram opnir í sam­ræmi við til­lögur sótt­varna­læknis.

Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hún hafi fallist á til­lögur sótt­varna­læknis í megin­at­riðum en hún gerði tvær breytingar, annars vegar að veitinga­staðir mættu vera með 20 gesti í hverju rými, þar sem sótt­varna­læknir lagði til 10, og að 30 mættu koma saman í at­höfnum hjá trúar- og lífs­skoðunar­fé­lögum, þar sem sótt­varna­læknir lagði til 20.

Skoða hertar aðgerðir á landamærunum

Líkt og greint var frá í gær er búið að boða hertar að­gerðir á landa­mærunum en heil­brigðis­ráð­herra greindi frá því að þær breytingar yrðu gerðar að börn þurfi að fara í sýna­töku líkt og full­orðnir, og að allir þeir sem koma frá á­hættu­svæðum þurfi að fara í sótt­varna­hús við komuna til landsins.

„Þessar breytingar komast til fram­kvæmda núna alveg í lok mánaðarins,“ segir Svan­dís og bætir við að það þurfi að sjá hvernig því vindur fram. Þá vísar hún til þess að sótt­varna­læknir hafi lagt til breytingar á bólu­setningar­vott­orðum og að þeir fari í alla vega eina skimun við komuna til landsins.

„Þær til­lögur eru til skoðunar, þannig að við erum alltaf að hugsa með hvaða hætti við getum stoppað í götin eins vel og við getum,“ segir Svan­dís. Hún segist gera ráð fyrir að þær til­lögur verði ræddar í vikunni.