Hægt er að hakka sig inn í vélbúnað rafmagnshlaupahjóla sem seld eru á Íslandi til þess að auka hámarkshraða hjólsins. Þá má finna ótalmörg kennslumundbönd á netinu.

„Það eru öryggisgallar alls staðar, bara spurning um að finna þá,“ segir Benjamín Björn Hinriksson tölvunarfræðingur í samtali við Fréttablaðið.

Sannkallað rafmagnshlaupahjólaæði hefur gripið Íslendinga. Raftækjaverslunin ELKO seldi öll sín hjól í byrjun sumars og pantaði inn ný til að mæta aukinni eftirspurn. Formenn skipulagsráða Reykjavíkur og Akureyrar íhuga að leigja rafknúin hlaupahjól eins og er gert víða í Evrópu.

En hvernig er hægt að hakka sig inn í rafmagnshlaupahjól?

„Rafmagnshlaupahjólin eru stjórnuð af vélbúnaði. Vélbúnaðurinn er með svokallaðan firmware, eða fasthugbúnað, sem er lógík vélbúnaðarins. Þegar þú bremsar af miklum krafti, þá er lógíkin í vélbúnaðinum ástæðan fyrir því að þú fljúgir ekki af hjólinu. Lógíkin kemur í veg fyrir að hjólið bremsi 100 prósent strax, heldur gerist það hægt skilst mér. Þessi fasthugbúnaður kemur líka í veg fyrir að hjólið spóli þegar gefið er í. Það gefur ekki 100 prósent í strax. Þetta tryggir öryggi,“ segir Benjamín.

„Það er rosalega auðvelt að skipta um þennan fasthugbúnað.“

„Í þessu er líka hraðatakmarkari sem segir að þú megir ekki fara hraðar en 25 kílómetra á klukkustund.“ Hámarkshraði rafdrifinna hlaupahjóla á Íslandi er 25 kílómetrar á klukkustund og rafmagnshlaupahjólin sem seld eru í ELKO komast ekki hraðar., nema að það sé átt við lógíkina í vélbúnaðinum. Benjamín segir að hver sem er geti breytt stillingum hjólsins.

Batteríið endist skemur

„Það er rosalega auðvelt að skipta um þennan fasthugbúnað. Þetta er ekkert mál, það er meira að segja til app. Þú þarft bara að tengjast bluetooth,“ útskýrir Benjamín. Þar sé hægt að breyta hámarkshraðastillingu og stillingum um hversu hægt hjólið bremsi og gefi í og öllum öryggisatriðum sem tengd eru batteríinu. Þetta gæti skapað mikla hættu og gætu hjólamenn flogið af hjólinu við að bremsa af fullum krafti.

Hann segir að raunverulegu hraðatakmörk hjólsins fari eftir mótornum. Þeir mótorar sem eru í rafknúnum hlaupahjólum á Íslandi komast upp í 32 kílómetra hraða. Því er einungis hægt að hækka hraðatakmörkin um 7 kílómetra hraða.

„Að mínu mati er þetta alls ekki þess virði. Ókosturinn við að hækka hámarkshraðann er að batteríið mun endast skemur,“ segir Benjamín.

Raf­tækja­verslanir í Noregi hafa tíma­bundið hætt sölu á raf­hlaupa­hjólum sem komast hraðar en á 20 kíló­metra hraða á klukku­stund.