Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, lagði á þriðjudaginn fram frumvarp til breytingar á hjúskaparlögum. Breytingarnar snúa að hjónaskilnuðum og eiga að auðvelda og flýta fyrir ferlinu þegar annar aðili hjónabands vill skilnað.

Núgildandi lög gagnist ofbeldismönnum

Núgildandi lög kveða á um að lögskilnaður er kræfur hálfu ári frá því að leyfi hefur verið gefið út til skilnaðar að borði og sæng séu hjón á einu máli um að leita skilnaðar en ári frá slíku leyfi sé skilnaðar krafist af hálfu annars hjóna. Hafi hjón hins vegar slitið samvistir vegna ósamlyndis, án þess að leyfi fyrir skilnaði hafi verið veitt, getur hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið yfir í tvö ár.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að áhrif gildandi reglna séu meðal annars þau að í þeim tilvikum þar sem annað hjóna leitast eftir því að losna úr hjúskap þar sem andlegu eða líkamlegu ofbeldi er beitt hefur hitt í hendi sér að tefja skilnaðinn í langan tíma.

Í núgildandi lögum er þá afar þröng heimild til að krefjast lögskilnaðar ef annað hjóna hefur orðið uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti sem bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim. Í þeim tilvikum er það þó hlutverk þess sem fer fram á skilnaðinn að sanna brot maka síns og að það hafi verið framið af ásettu ráði.

Vilja auðvelda ferlið

Í frumvarpinu er þá lagt til að sú breyting verði á að réttur hjóna til skilnaðar sé hinn sami óháð því hvort annað þeirra krefjist skilnaðarins eða bæði. Þá verði sá tími frá því að leyfi hefur verið gefið út til skilnaðar ef annað hjóna krefst skilnaðarins og þar til lögskilnaðurinn er kræfur styttur úr einu ári í hálft. Einnig er lagt til að lágmarkstími frests til að krefjast lögskilnaðar í kjölfar samvistaslita verði styttur út tveimur árum í eitt.

Jón Steindór Valdimarsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en þá eru allir þingmenn Viðreisnar meðflutningsmenn, fjórir þingmenn Pírata, tveir þingmenn Samfylkingarinnar og einn þingmaður Vinstri grænna.

Jón birti grein í Fréttablaðinu 7. maí þar sem hann nefndi að til stæði að leggja frumvarpið fram. Þar sagði Jón meðal annars: „Oft lýkur ofbeldi, líkamlegu en þó aðallega andlegu, ekki við það að fólk slíti sambúð. Sá sem ofbeldinu hefur beitt heldur því áfram með þeim aðferðum sem tiltækar eru, svo sem með þrætum um forræði og umgengni við börn, baráttu gegn lögskilnaði og töfum á fjárhagslegum skiptum. Þannig er ofbeldinu og tökum geranda á lífi þolandans haldið áfram um árabil.“

Þá sagði Jón undarlegt að hjúskaparbrot væru mun greiðfærari skilnaðarástæða en ofbeldi. Frumvarpinu sé ætlað að gagnast þolendum ofbeldis í hjónaböndum.