Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson birti rétt í þessu yfirlýsingu um ásakanir í hans garð. Þar kveðst hann ekki alltaf hafa virt mörk en þvertekur fyrir flökkusögur sem hafa gengið um hann á samfélagsmiðlinum Twitter.

„Árið 2019 fór ég yfir mörk konu án þess að átta mig á því fyrr en við töluðum saman síðar,“ segir Auðunn, sem kveðst hafa beðist afsökunar og reynt að axla ábyrgð. „Upplifun konunnar er það sem skiptir máli.“

Borið hefur hátt á umræðum um meint brot Auðuns á samfélagsmiðlum síðastliðna daga og hafa ásakanirnar einnig verið til umræðu í Þjóðleikhúsinu, þar sem Auður er einn þeirra sem semur tónlistina í uppsetningu Rómeó og Júlíu.

„Allt frá því þetta mál kom upp hef ég verið miður mín því ábyrgðin er öll mín. Ég er þakklátur fyrir öll þau samtöl sem ég hef átt við fagaðila í kjölfarið. Vegna þeirra hef ég áttað mig á að ég hef ekki alltaf virt mörk,“ skrifar Auðunn.

Flökkusögur ósannar

Auðunn neitar því hins vegar að allir orðrómar um hann séu sannir. „Undanfarnar vikur hafa hins vegar flökkusögur um alvarlega afbrot farið á flug á Twitter sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Ég vona að flestir sjái að svo sé.“

Þá segist tónlistarmaðurinn fordæma kynbundið ofbeldi og skammast sín fyrir að hafa verið hluti af vandanum. „Ég veit ekki alveg hvernig næstu vikur eða mánuðir verða en ég veit að ég þarf að setja áframhaldandi sjálfsvinnu í forgang.“

Yfirlýsing Auðuns í heild sinni:

Árið 2019 fór ég yfir mörk konu án þess að átta mig á því fyrr en við töluðum saman síðar. Ég tók málið alvarlega, baðst afsökunar og reyndi að axla ábyrgð, bæði gagnvart konunni og með því að tala við sálfræðing sem mér var bent á af Stígamótum.

Upplifun konunnar er það sem skiptir máli. Samkvæmt frásögn hennar spurði ég „má ég“ og „líður þér óþægilega?“ en var samt ágengur. Við fækkuðum ekki fötum en ég hefði átt að hætta fyrr.

Hún hefur bæði á Messenger og á Instagram hvatt mig til að nýta þann vettvang sem ég hef til að taka ábyrgð á hegðun minni.

Allt frá því þetta mál kom upp hef ég verið miður mín því ábyrgðin er öll mín. Ég er þakklátur fyrir öll þau samtöl sem ég hef átt við fagaðila í kjölfarið. Vegna þeirra hef ég áttað mig á að ég hef ekki alltaf virt mörk.

Ég er staðráðinn í að læra meira af þeirri umræðu sem hefur verið í gangi, bæta hegðun mín og koma út úr þessu sem betri maður.

Undanfarnar vikur hafa hins vegar flökkusögur um alvarlega afbrot farið á flug á Twitter sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Ég vona að flestir sjái að svo sé.

Ég fordæmi kynbundið ofbeldi og skammast mín fyrir að hafa verið blindur á hvernig ég var hluti af vandanum. Ég veit ekki alveg hvernig næstu vikur eða mánuðir verða en ég veit að ég þarf að setja áframhaldandi sjálfsvinnu í forgang.

Auðunn.