Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson, sem gengur undir listamannsnafninu Auður, verður ekki með í uppsetningu leikverksins Rómeó og Júlíu í Þjóðleikhúsinu næsta vetur.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær var leikhúsið með ásakanir um kynferðisbrot á hendur söngvaranum til skoðunar. Gaf tónlistarmaðurinn út yfirlýsingu í kjölfarið þar sem hann sagðist hafa farið yfir mörk konu. Sagðist hann ekki myndu sinna verkefnum á næstu vikum og mánuðum og setja áframhaldandi sjálfsvinnu í forgang.
Átti tónlistarmaðurinn að sjá um tónlistina í leiksýningunni sem frumsýnd verður í Þjóðleikhúsinu í september ásamt tónlistarkonunni Sölku Valsdóttir og fleirum. Í gær tilkynnti Auður að hann myndi draga sig í hlé og staðfestir Þjóðleikhússtjórinn Magnús Geir Þórðarson við Vísi að Auður muni ekki koma fram í verkinu eins og til stóð.
Samkvæmt leikhússtjóranum verður fjölbreytt tónlist í verkinu eftir ólíka listamenn en á þessum tímapunkti liggur ekki nákvæmlega fyrir hvaða tónlist verður notuð enda mun þróun sýningarinnar halda áfram þegar æfingar hefjast að nýju að loknu sumarleyfi í leikhúsinu.
Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær mun Auður ekki koma fram á tónleikum Bubba Morthens 16. júní næstkomandi eins og til stóð.
Fyrir þá sem hafa ekki séð það þá verður Auður ekki með á tónleikum mínum 16 júní
— Bubbi Morthens (@BubbiMorthens) June 7, 2021