Söngvarinn Auður, eða Auðunn Lúthersson viðurkennir að hafa brotið á konum, farið yfir mörk þeirra og verið ógnandi í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.

Hann vísar þó orðrómnum um þöggunarsamninga og brot gegn stúlku undir lögaldri alfarið á bug, og segir það uppspuna frá rótum.

„Það er í grunninn munur á því að trúa þolendum og trúa orðrómum. Ég get ekki tekið við því sem er algjörlega ósatt. Ég vil miklu frekar, bæði hér og í lífi mínu, axla ábyrgð á þeirri hegðun sem ég ber ábyrgð á. Særandi og óþægileg, ég hef verið að fara yfir mörk, og ég hef verið meiðandi í minni hegðun. Ég hef ekki gert mér almennilega grein fyrir henni en ég samt ber algjörlega ábyrgð á henni,“ segir Auðunn.

„Það var ákveðið breakthrough hjá mér að tala við sálfræðinginn minn, hann sagði við mig að það sé hægt að beita ofbeldi án þess að ætla sér það og án þess að gera sér grein fyrir því að maður sé að því. Og ég tók þetta svolítið til mín og hef verið að taka þetta til mín. Vegna þess að ég veit að ég hef aldrei ætlað mér að vera særandi eða óþægilegur eða dónalegur eða fara yfir mörk eða vera skeytingarlaus í mínum samskiptum. En það er sannarlega það sem ég þarf að axla ábyrgð á.“

Tekur ábyrgð á hegðun sinni

Á einni nóttu breyttist allt fyrir einum vinsælasta tónlistarmanni landsins þegar sögur fóru að berast um kynferðisbrot af hans hálfu, frelsissviptingar, brot gegn ólögráða stúlkum og byrlanir.

Auðunn sendi frá sér yfirlýsingu eftir að kona steig fram þar sem hann viðurkenni að hafa farið yfir mörk konunnar. Tvær aðrar konur sendu einnig frá sér yfirlýsingu sem leiddi til þess að Auður dró sig úr sviðsljósinu, og hefur ekki tjáð sig um málið fyrr en nú.

Hann segist axla á ábyrgð á gjörðum sínum og viðurkenni að hegðun hans hafi verið meiðandi og óásættanleg í garð kvennanna. Að sögn Auðuns er hann að vinna í sjálfum sér með aðstoð sálfræðing og hafi reynt að bæta upp fyrir brot sín, ásamt því að leita leið til þess að nálgast konurnar þrjár.

Þá hafi ein kona verið tilbúin að ræða við hann, eða fara með honum í svokallaða sáttameðferð.

„Mér þykir rosalega vænt um að hafa fengið að hitta þarna eina stelpu, fyrst hittumst við tvö og síðan hjá sálfræðingi og þar náum við að tala um þetta mál og ég náði að skilja miklu betur mína hegðun,“ segir Auðunn.