Pavel Antov, rússneskur auðjöfur og flokksbróðir Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta, fannst látinn við Lúxushótel í Indlandi. Telegraph fjallar um málið.

Talið er að hann hafi látið lífið er hann féll út um glugga á þriðju hæð Sai International-hótelsins í Rayagada-héraði Indlansd. Antov var í fríi til að halda upp á 66 ára afmæli sitt, sem var fram undan.

Haft er eftir talsmanni lögreglunnar að talið sé að hann hafi framið sjálfsvíg, eftir andlát vinar síns sem lést á þessu sama hóteli nokkrum dögum áður. Sá fannst látinn inni í hótelberbergi sínu, umkringdur tómum vínflöskum.

Í júlí á þessu ári hafði Antov gagnrýnt rússnesk stjórnvöld á WhatsApp. Þar kallaði hann loftárásir Rússa á Kænugarð „hryðjuverk“.

Skömmu eftir það baðst hann afsökunar á þeim ummælum og vildi meina að einhver annar hefði deilt þeim. Í raun væri hann stuðningsmaður forsetans og innrásarinnar í Úkraínu.