Audi TT sportbíllinn á marga aðdáendur enda fer þar snoppufríður bíll sem vakið hefur aðdáun allt frá komu hans árið 1998. Það kemur þó líklega ekki í veg fyrir það að Audi ætlar að hætta framleiðslu hans til að búa til meira rými fyrir jepplinga og jeppa sem seljast nú sem aldrei fyrr. Audi mun að öllum líkindum bæta við Q4 jepplingi og Q9 jeppa á næstu árum. 

Það hjálpar TT bílnum heldur ekki að hann er tveggja hurða bíll með svo til ónothæfum aftursætum sem í honum eru nánast uppá punt. Slíkir bílar hafa verið á nokkru undanhaldi í heiminum og nokkrir slíkir horfið úr framboði bílaframleiðenda og sala Audi TT hefur ekki verið svo góð á undanförnum árum. 

Það er því ólíklegt að fjórða kynslóð TT líti dagsins ljós en sú þriðja kom á markað árið 2014 og til stendur hjá Audi að framleiða hann til ársins 2022, en síðan ekki söguna meir. Það mun þó ekki endilega þýða að enginn smávaxinn sportbíll verði í boði frá Audi því þar á bæ er verið að hugleiða smíði annarskonar bíls sem leysa myndi hann af hólmi.