Þegar Audi mun uppfæra S5 bíl sinn næst á milli kynslóða eru allar líkur til þess að bíllinn fái sömu 342 hestafla dísilvélina sem finna má í SQ5 jepplingnum. Þessi vél er með mild-hybrid kerfi og togar heil ósköp, eða 700 Nm og er með ekkert forþjöppuhik. Þessi vél mun þá fara í allar S5 Coupe, Cabriolet og Sportback útgáfurnar. Þessi tilhögun kemur nokkuð á óvart en á sér þær skýringar að með henni mun Audi lækka CO2 mengun bílaflota síns, en þessi vél mengar minna af CO2 en núverandi vélin í Audi S5. 

Það er svo sem þekkt að dísilvélar finnist í kraftagerðum Volkswagen Group bíla, svo sem í Skoda Octavia RS og VW Golf GTD, sem og í Touareg V8 TDI, en Audi greindi frá því á bílasýningunni í Genf, sem enn stendur yfir, að Touareg myndi fá þessa öflugu vél á næstunni. Búist er við því að Audi S5 með öflugu dísilvélinni komi þó ekki á markað fyrr en seint á næsta ári eða árið 2021.