Audi hélt blaðamannafund um málið á nýyfirstöðnum Belgíukappakstri. Að sögn forstjóra Audi, Markus Duesmann, hafa áætlanir um að gera Formúlu 1 meira sjálfbæra og ódýrari fyrir keppnisliðin haft áhrif á ákvarðanatöku Audi. „Mótorsportið er hluti af erfðamengi Audi. Formúla 1 er á heimsmælikvarða og þar er þróunarmiðstöð hátæknibíla.“ Með nýju reglunum munum við sjá flóknar tvinnútfærslur V6- vélanna hverfa en framleiðendur fá meiri tíma til prófana. Audi ætlar að þróa sína eigin vél í Ingolstadt en það verður fyrsta Formúlu 1-vélin frá Þýskalandi í meira en áratug. Áfram verður notast við rafmótora til aflaukningar en að sögn Audi er mögulegt að fá jafn mikið afl úr einum slíkum eins og 1,6 lítra bensínvél með forþjöppu. Vélarnar munu þurfa að geta brennt sjálfbæru eldsneyti. Talið er að Audi muni kaupa ráðandi hlut í Sauber og taka yfir vélarsamning þann sem Ferrari hefur haft við Alfa Romeo. Audi verður þó líklega ekki eina merkið frá VW Group í Formúlunni á næstu árum. Talið er að Porsche muni einnig taka þátt á næstunni sem vélarframleiðandi, þá einna helst fyrir Red Bull.