ÁTVR undirbýr nú beiðni um lögbann á hendur vefverslununum sem selja áfengi í smásölu til neytenda hér á landi og höfðun dómsmáls í framhaldi af því. Samhliða er hafinn undirbúningur lögreglukæru vegna starfseminnar.

Í tilkynningu frá ÁTVR segir að slíkar verslanir hafi að undanförnu sprottið upp og að starfseminni sé beint gegn lögbundnum einkarétti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis sem þau segja að hafi verið ein grunnstoða íslenskrar áfengisstefnu.

„Þrátt fyrir afdráttarlaus ákvæði áfengislaga og laga um verslun ríkisins með áfengi og tóbak um einkaleyfi ÁTVR til þess að selja og afhenda áfengi í smásölu fullyrða rekstraraðilar vefverslananna að starfsemi þeirra sé lögleg. Óhjákvæmilegt er að fá úr því skorið hjá til þess bærum aðilum,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að lokum að einkaréttur ríkisins til smásölu áfengis byggi á lýðheilsusjónarmiðum og mati löggjafans að markmiðum um heilsu þjóðarinnar verði ekki náð með öðrum leiðum.

„Verði starfsemi vefverslana í beinni samkeppni við smásölu ÁTVR látin óáreitt felur það í sér grundvallarbreytingu á áfengisstefnunni og forsendum fyrir rekstri fyrirtækisins,“ segir að lokum.

Greint var frá því í síðustu viku að Arnar Sig­urðs­son, vín­kaup­mað­ur og eig­and­i frönsk­u vín­búð­ar­inn­ar Sant­ew­in­es SAS sem ætl­uð er Ís­lend­ing­um, hafi kvart­að til Neyt­end­a­stof­u vegn­a þess að Á­feng­is- og tób­aks­versl­un rík­is­ins (ÁTVR) noti nafn­ið Vín­búð um rekst­ur­inn. Hann telur að nafngiftin eigi sér ekki lagastoð og að það sé verið að blekkja neytendur. Samtök verslunar og þjónustu telja að verslunin sé lögleg vegna EES-samningana.