Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur stefnt Þórgný Thor­odd­sen, eiganda Bjórlands, fyrir héraðsdóm. Málið verður tekið fyrir í næstu viku.

Bjórland er netverslun sem selur bjór og sendir heim og hefur starfað í meira en ár. „Mér finnst gaman að fá þetta stuttu fyrir kosningar. Það hafa ýmsir stjórn­mála­menn talað ansi frjáls­lega um þetta. Bjarni Ben sagði berum orðum að hann sæi ekki að þetta væri lög­brot og Ás­laug Arna hefur verið mikill tals­maður þessa, Við­reisn líka og Píratar. Mér finnst þetta á­kveðið tæki­færi,“ sagði Þórgnýr.

Tvær aðrar netverslanir, sem skráðar eru erlendis, selja áfengi hér á landi á internetinu, Sante og Nýja vínbúðin.

Félag atvinnurekenda gagnrýndi ÁTVR harðlega í yfirlýsingu í gær fyrir að beita sér í málinu.

ÁTVR telur þó engan vafa leika á að einkarétturinn til smásölu áfengis taki einnig til vefsölu áfengis og að starfsemi þeirra vefverslana sem nú hefur verið stefnt fyrir dóm sé tvímælalaust ólögmæt.

„ÁTVR er handhafi einkaréttarins til þess að selja og afhenda áfengi í smásölu hérlendis. Einkarétturinn hefur í för með sér að öðrum ætti að vera bannað að stunda sömu starfsemi,“ segir Bjarki Már Baxter lögmaður ÁTVR. Hann segir að ýmsir hafi túlkað aðgerðaleysi yfirvalda gagnvart vefverslununum sem staðfestingu á að rekstur þeirra hljóti að vera löglegur.

„ÁTVR getur ekki búið við þessa réttaróvissu og hefur engan kost annan en að leita eftir niðurstöðu dómstóla,“ segir Bjarki Már.