Útflutningur á óunnum fiski í gámum og staða innlendrar fiskvinnslu verður rædd á fundi atvinnuveganefndar í dag. Samkvæmt tilkynningu á vef Alþingis er efni fundarins samkeppnisstaða innlendrar fiskvinnslu gagnvart ríkisstyrktri fiskvinnslu innan ESB.

Nefndin fær til sín gesti frá Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í sjávar­útvegi, Sjómannasambandinu og fleiri samtökum.

Á sjötta tug starfsmanna Ísfisks á Akranesi var sagt upp störfum í síðustu viku og í kjölfarið fordæmdi formaður Stéttarfélags Akraness að heimilt væri að flytja út mikið magn af óunnum fiski. Störfum í fiskvinnslu hefði fækkað úr 9.600 í 2.900 á 25 árum.

Sjávarútvegsráðherra taldi viðfangsefnið ekki það stórt að það kallaði á sérstaka greiningu í svari við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, síðastliðinn vetur. Í fyrirspurn sinni lýsti Oddný áhyggjum af vaxandi útflutningi á óunnum fiski og yfirboðum stærri útgerða á fiski sem þær flyttu svo óunninn úr landi. Afleiðingin væri erfiður rekstur og hráefnisskortur hjá fiskvinnslum um allt land með tilheyrandi uppsögnum og rekstrar­stöðvunum.

Fundur atvinnuveganefndar hefst klukkan níu og verður opinn fjölmiðlum.