Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur að atvinnurekstrarbann geti nýst í baráttunni gegn kennitöluflakki og hefur lagt fram frumvarp þess efnis á Alþingi. Nánar tiltekið breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti.

Verði frumvarpið að lögum getur skiptastjóri krafist atvinnurekstrarbanns á þann sem stjórnar umræddu félagi undanfarna 18 mánuði. Sé það samþykkt má sá hinn sami ekki stýra félagi í allt að þrjú ár.

Er frumvarpið liður í baráttu ríkisstjórnarinnar gegn kennitölu­flakki sem meitlað var í sáttamála stjórnarinnar fyrir ári.

„Mikilvægt er að horfa til þess grundvallaratriðis að tilgangur atvinnurekstrarbanns er ekki refsing heldur að vernda almenning og samfélagið í heild sinni fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins

„Að því sögðu er ljóst að atvinnurekstrarbann er íþyngjandi úrræði og því mikilvægt að því verði ekki beitt nema ástæða sé til og að ákvörðun þar að lútandi byggist á heildarmati á öllum aðstæðum í samræmi við þau sjónarmið sem sett eru fram í frumvarpinu,“ segir þar enn fremur.

Lagabreytingar eru ein leið til að berjast gegn kennitöluflakki og vill Jón láta reyna á þá leið. Það sé Alþingis og þingmanna að taka ákvörðun um framgang þess.

Þetta er í annað skiptið sem Jón leggur frumvarpið fram.