Fjörkippur hefur færst í flestar atvinnugreinar á Íslandi á milli áranna 2020 og 2021 og á það einkum og sér í lagi við um ferðaþjónustu. Þá vekur sérstaka athygli að viðspyrnan er einnig veruleg á milli áranna 2019 og 2021, það er frá því fyrir tíma farsóttarinnar.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar þar sem segir að meiri velta hafi verið í flestum atvinnugreinum á tímabilinu maí til júní 2021 miðað við sama tímabil á árinu á undan. Þessi vöxtur skýrist einkanlega af því að vorið 2020 var mikið um lokanir og takmarkanir vegna kórónaveirufaraldursins.

Ef tímabilið frá vormánuðum 2019, fyrir tíma pestarinnar, er borið saman við maí og júní á þessu ári, sést að velta jókst verulega í framleiðslu, sjávarútvegi og flestum greinum verslunar. Það merkir með öðrum orðum að atvinnulífið er að ná sama uppgangi og fyrir tíma veirukreppunnar – og vel það.

Þær greinar sem hafa bætt sig mest frá því fyrir farsóttina eru heildsala, 19 prósent, smásala, 21 prósent, bílasala, 28 prósent, málmiðnaður, 34 prósent, og starfsemi erlendra fyrirtækja hér á landi, 291 prósent.

Viðsnúningur í afkomu margra greina milli áranna 2020 og 2021 er einnig mikill, ef áðurgreind tímabil eru skoðuð, einkanlega hjá ferðaskrifstofum, en rekstur þeirra dróst saman um 65 prósent árið 2020 en jókst um 439 prósent í ár. Gistiþjónusta fer úr 54 prósenta samdrætti í 126 prósenta vöxt og bílaleiga úr 33 prósenta niðursveiflu í 30 prósenta uppsveiflu.