Allt stefnir í að atvinnuleysi verði um 5,1 prósent um mánaðamótin sem er nokkurn veginn sama hlutfall og þegar faraldurinn skall á í febrúar árið 2020. Mest var atvinnuleysið í janúar, 11,6 prósent, en hefur lækkað í hverjum mánuði síðan. Í ágúst var hlutfallið 5,5 prósent.

„Þetta er gríðarlega jákvætt,“ segir Birna Guðmundsdóttir, deildarstjóri gagnagreininga hjá Vinnumálastofnun. „Atvinnulífið var um 100 mánuði að jafna sig eftir bankahrunið en þessi atvinnukreppa virðist vera 20 mánuðir. Um fimm sinnum fljótari.“

Birna segir atvinnuleysisspána fyrir veturinn bjarta. „Ferðaþjónustan er komin í einhvers konar jafnvægi og jafnvel betra en fyrir faraldurinn. Kannski viljum við ekkert tvær til þrjár milljónir ferðamanna á ári,“ segir hún. „Fólk hefur færst til milli greina og horfurnar fyrir veturinn eru ekki slæmar. Við fáum ekki slæman vetur eins og í fyrra.“

Þrátt fyrir það má alltaf gera ráð fyrir árstíðabundnum sveiflum og að atvinnuleysið verði mest yfir mestu vetrarmánuðina, janúar fram í mars, þegar byggingariðnaðurinn, ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn eru í mestri lægð.

Samkvæmt Birnu ganga ráðningar vel þó að þær séu ekki jafn miklar og í sumar þegar ferðaþjónustan endurréð stóran hluta síns starfsfólks.

Hefjum störf, úrræði stjórnvalda, hefur nýst ákaflega vel og hefur um þriðjungur ráðninga verið í gegnum það. Heildarfjöldi ráðninga í gegnum úrræðið, sem gildir til áramóta, er nú um 6.500 en í upphafi var gert ráð fyrir 7.000 í heildina. Mest í ferðaþjónustu og tengdum greinum eins og veitingageiranum.

„Við sáum það vel í sumar að úrræðið vann vel á langtíma­atvinnu­leysinu,“ segir Birna.