Atvinnuleysi á Íslandi dróst saman um 2,8 prósent á milli apríl og maí í ár. Þetta kom fram í niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar sem birtar voru á vef Hagstofu í morgun. Í tilkynningu Hagstofu um tölurnar kemur fram að árstíðaleiðrétt atvinnuleysi hafi verið 5,8 prósent í maí og atvinnuþátttaka hafi verið 77,9 prósent. Séu tölurnar leiðréttar eftir árstíðum lækkaði hlutfall atvinnulauss fólks á aldrinum 16-24 ára um 13,7 prósent, talsvert meira en heildaratvinnuleysið.

Í maí voru alls 210.600 einstaklingar á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaðinum, sem er um áttatíu prósent atvinnuþátttaka. Þar af voru 192.900 starfandi en 17.600 atvinnulausir og í leit að vinnu. Hlutfall starfandi fólks jókst um 3,5 prósent frá maí árið 2020 en hlutfall atvinnulausra lækkaði um 3,3 prósentustig.

Alls var metið að 36.500 manns, eða 16,6 prósent vinnuaflsins, hafi ekki haft þá atvinnu sem þeir þörfnuðust í maí. Af þeim var um helmingur atvinnulaus og um fjórðungur starfandi í hlutastarfi. Aðrir voru ýmist ekki tilbúnir að vinna eða ekki tilbúnir að leita vinnu.