Vinnu­mála­stofnun býst við skarpri aukningu at­vinnu­leysis næstu mánuði, og tölur gætu líkst því sem gerðist eftir banka­hrunið en þá fór at­vinnu­leysi upp í um níu prósent. Árið 2009 voru að jafnaði um 15 þúsund manns á at­vinnu­leysis­skrá. Mikil eftir­spurn hefur verið eftir að fá að minnka starfs­hlut­fall og gæti sú að­gerð dregið úr högginu.

Ná­kvæmar at­vinnu­leysis­tölur fyrir mars­mánuð liggja ekki fyrir en sam­kvæmt Karli Sigurðs­syni, sér­fræðingi hjá Vinnu­mála­stofnun, hefur verið tölu­vert um upp­sagnir og upp­sagnar­á­form. Þá megi búast við ein­hverjum hóp­upp­sögnum er nær líður mánaða­mótum. Einnig þarf að taka upp­sagnar­frest fólks inn í jöfnuna, en hann er mis­langur hjá fólki.

„At­vinnu­leysi mun rjúka upp í apríl­mánuði. Í fyrra, þegar WOW Air fór á hausinn, fór það upp um 0,4 prósent og við gætum séð svipaðar tölur núna,“ segir Karl. En í venju­legu ár­ferði minnkar at­vinnu­leysi milli mars og apríl.

Í banka­hruninu varð al­gjört frost í bygginga­geiranum en nú eru upp­sagnir mest á­berandi í ferða­þjónustunni, þjónustu­starf­semi og verslun. „Þetta er að snerta ansi marga geira sam­fé­lagsins,“ segir Karl.

Fyrir að­eins tæpum mánuði var gert ráð fyrir að heildar­at­vinnu­leysi ársins yrði 4,5 prósent, sem hefði verið það hæsta síðan árið 2011. Nú eru hins vegar þau spá­líkön fokin út í veður og vind, vegna á­hrifa CO­VID-19. „Fyrir viku reiknuðum með 5,1 prósenti en mér sýnist að þetta gæti orðið all­mikið meira en það,“ segir Karl. „Við gætum verið að sjá tölur svipaðar og eftir banka­hrunið, þegar hlut­fallið fór upp um 1-1,5 prósentu­stig í hverjum mánuði nokkra mánuði í röð.“

Karl segir að þennan snarpa skell mætti milda með frum­varpi fé­lags­mála­ráð­herra um skert starfs­hlut­fall. Nú þegar hefur komið inn mikið af fyrir­spurnum til Vinnu­mála­stofnunar en frum­varpið er á loka­metrunum í með­förum þingsins. „Fólk er að sjá fyrir sér að missa ekki alveg vinnuna og að ferða­þjónustan glæðist aftur í sumar. Í hruninu lagðist hins vegar byggingar­iðnaðurinn eins og hann lagði sig á hliðina.“

Að­spurður um ráðningar segir Karl að al­gert frost sé í þeim enda eins og er „okkar hug­myndir um aukinn kraft í starfs­þjálfun og ráðningar­styrk falla svo­lítið um sjálfar sig“. Þó séu at­vinnu­greinar þar sem á­standið hafi ekki jafn­mikil á­hrif. Í ljósi þess höggs sem at­vinnu­lífið í heild sé að verða fyrir megi þó gera ráð fyrir undir­liggjandi at­vinnu­leysi fram á haustið og næsta vetur. Er þá horft til þess að setja í gang stærri námsúr­ræði, en í mars getur fólk ekki komist inn í há­skólana eins og oft vill verða í at­vinnu­hall­æri.