Helena Rós Sturludóttir
Laugardagur 11. júní 2022
15.00 GMT

Nú er tæpur mánuður liðinn frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Ljóst er að nokkrar hreyfingar verða á störfum sveitarstjóra í ýmsum sveitarfélögum.

Við upphaf nýs kjörtímabils eru sveitarfélögin á landinu 64 talsins en þeim fækkaði um átta á síðasta kjörtímabili.

Fréttablaðið heyrði í nokkrum fráfarandi sveitarstjórum um næstu skref og hefur ekkert þeirra ákveðið hver þau verða. Flest eru þó sammála um að nú taki við kærkomið sumarfrí.

Næstu skref

Ármann Kr. Ólafsson hefur starfað sem bæjarstjóri Kópavogs í tíu ár. Að sögn Ármanns er framtíðin óákveðin.

„Það verður bara að koma í ljós hvað maður fer að gera í framtíðinni. Ég lofa því samt að sitja ekki auðum höndum.“

 • Laun við ráðningu: 2.162.000 kr, þau voru hærri kjörtímabilið á undan en voru lækkuð um 15 prósent við upphaf síðasta kjörtímabils.
 • Önnur kjör: Akstursstyrkur um 100.000 kr.

Ásgerður Halldórsdóttir hefur starfað sem bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar í þrettán ár.

Að sögn Ásgerðar ætlar hún að njóta lífsins næstu mánuði.

„Vera í faðmi fjölskyldunnar, fara ferðast og lækka forgjöfina í golfi. Hugsa um og aðstoða barnabörnin. Það er ekkert annað ákveðið næstu mánuði.“

 • Laun við ráðningu: Um 1.600.000 kr.
 • Laun í lok kjörtímabils: 1.833.261 kr.
 • Önnur kjör: Bíll

Gunnar Einarsson hefur verið bæjarstjóri Garðabæjar í sautján ár.

Að sögn Gunnars er framtíðin óráðin. „Ég er bara frjáls maður og er ekkert að leita mér sérstaklega að vinnu.

Ég er bara að njóta lífsins og sinna mér og mínum.

Það getur vel verið að ef einhver verkefni koma þá tek ég afstöðu til þeirra hvort ég hafi áhuga eða nenni.“

 • Laun við ráðningu: Um 2.065.000 kr.
 • Laun í lok kjörtímabils: Um 3.045.542 kr.
 • Önnur kjör: Bíll
Fréttablaðið
Valdimar Hermannsson, Þórdís Sif Sigurðardóttir og Gísli Halldór Halldórsson.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Framhaldið óljóst

Þórdís Sif Sigurðardóttir hefur starfað sem bæjarstjóri Borgarbyggðar í tvö ár.

Aðspurð um framhaldið segir Þórdís Sif það óráðið. „Það er ekkert plan. Nú er ég bara að heyra í fólki og nýta tengslanetið mitt og skoða hvað mig langar að gera næst.“

 • Laun við ráðningu: um 1.375.000 kr.
 • Laun í lok kjörtímabils um 1.550.000 kr.
 • Önnur kjör: Bíll.

Valdimar Hermannsson hefur starfað sem bæjarstjóri Blönduósbæjar síðustu fjögur ár.

Nú hefur Blönduósbær sameinast Húnavatnshreppi í nýtt sveitarfélag sem ber nafnið Húnabyggð. Ákvörðun var tekin um að auglýsa starf sveitarstjóra á næstunni og að sögn Valdimars hefur hann ekki ákveðið hvort hann muni sækja um.

„Mig langar að halda áfram en staðan verður auglýst vegna samruna sveitarfélaganna. Ætla að meta hvort ég sæki um þegar auglýsingin kemur.“

 • Laun við ráðningu: Um 980.000 kr.
 • Laun í lok kjörtímabils: Um 1.100.000 kr.
 • Önnur kjör: Akstursstyrkur, sími og tölva, um 100.000 kr.

Gísli Halldór Halldórsson hefur starfað sem bæjarstjóri í átta ár, fyrst hjá Ísafjarðarbæ og síðar hjá Árborg.

Að sögn Gísla Halldórs væri hann til í áframhaldandi starf sem sveitarstjóri en fyrst ætlar hann í frí.

„Ég get alveg hugsað mér að vera bæjarstjóri ef rétt verkefni býðst. Er að fara áleiðis til Ástralíu á sunnudag og verð í tvo mánuði.“

 • Laun við ráðningu: 1.600.000 kr.
 • Laun í lok kjörtímabils: 1.822.000 kr.
 • Önnur kjör: Aksturspeningar um 105.000 kr. á mánuði.
Matthildur Ásmundardóttir og Haraldur Sverrisson.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Sumarfrí

Matthildur Ásmundardóttir hefur starfað sem bæjarstjóri Hornafjarðar síðastliðin fjögur ár.

Að sögn Matthildar hefur hún ekki ákveðið framhaldið. „Ég er ekki búin að ákveða neitt – ég hef alveg áhuga á að halda áfram á sömu braut ef eitthvað spennandi býðst en annars eitthvað nýtt. Er að skoða næstu skref.“

 • Laun við ráðningu: 1.300.000 kr.
 • Laun í lok kjörtímabils: 1.420.000 kr.
 • Önnur kjör: Akstursstyrkur um 80.000 kr.

Haraldur Sverrisson hefur starfað sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar í fimmtán ár.

Framtíðin er óráðin að sögn Haraldar. „Ég er bara í rólegheitum í fríi og ákvað nú bara að taka þetta sumar í frí eftir 15 ár í þessu starfi. Framhaldið verður svo að koma í ljós.“

 • Laun við ráðningu: Um 1.700.000 kr.
 • Laun í lok kjörtímabils: Um 2.000.000 kr.
 • Önnur kjör: Aksturspeningar um 100.000 kr. á mánuði.

*Miðað er við laun við ráðningu í upphafi síðasta kjörtímabils.

*Til viðmiðunar voru algeng laun bæjarstjóra á Íslandi á bilinu 1,2 til 1,8 milljónir króna á mánuði árið 2021 samkvæmt könnun á kjörum sveitarstjórnarfólks og framkvæmdastjóra sveitarfélaga 2022 sem Samband íslenskra sveitarfélaga framkvæmdi

Athugasemdir