Ríkisstjórnin mun leggja lykiláherslu á að standa vörð um stöf og skapa störf á næstu mánuðum. Þetta mátti skilja af máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, þar sem orðið „atvinna“ var leiðandi stef.

Sigurður fór yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar og viðbrögð við kórónuveirunni; hlutabótaleiðina og framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta. „Markmiðið er að standa vörð um ráðstöfunartekjur heimilanna eftir því sem kostur er. Því mánaðamótin koma með öllum sínum skuldbindingum. Við stöndum vörð um störf og sköpum ný störf. Það er atvinna, það er atvinna og það er atvinna sem málið snýst um“ sagði Sigurður Ingi.

Hann sagðist þá telja að ferðalög Íslendinga innanlands í sumar hafi þjappað þjóðinni saman: „Ísland er nefnilega ekki bara höfuðborg og landsbyggð. Við eigum landsbyggðir, ólíkar en samt með sömu hagsmuni fólks, hagsmuni þar sem atvinna er efst á blaði - það að geta mætt mánaðamótunum án þess að vera með kvíðahnút í maganum.“

„Um það snýst vinna okkar á Alþingi og í ríkisstjórn síðustu mánuðina , næstu vikur, næstu mánuði: Að standa vörð um störf og skapa ný störf. Atvinna, atvinna, atvinna,“ sagði ráðherrann. „Það eru viðamikil mennta- og starfsúrræði framundan fyrir þá sem missa vinnuna auk áherslunnar á að skapa ný störf og ný tækifæri. Það á ekki síst við um á þeim svæðum sem hafa orðið harðast úti vegna frosts í ferðaþjónustu, atvinnugreininni sem hefur auk landbúnaðar og sjávarútvegs verið lífæðin í byggðum landsins.“

„Við vitum öll að þegar þessar hörmungar hafa gengið yfir þá er framtíðin björt í ferðaþjónustu á Íslandi. Náttúran er enn jafnfögur, innviðir enn til staðar og styrkjast með hverju ári með metnaðarfullri samgönguáætlun og það sem er mikilvægast: Þekkingin hjá fólkinu og krafturinn er enn til staðar og mun springa út sem aldrei fyrr þegar veiran gefur eftir og ferðaþráin springur út að nýju,“ hélt Sigurður Ingi áfram.

„Við þurfum að vernda störf og við þurfum að skapa störf. Það er verkefni sem við getum sameinast um. Og þegar fer að vora verðum við tilbúin til að snúa vörn í sókn. Framsókn fyrir íslenskt samfélag. Því framtíðin ræðst á miðjunni. “ sagði hann þá og sagði að það styttist í að lífið færist í eðlilegt horf á ný. „Gleymum því ekki. Og sameinumst um að vernda störf og skapa störf því verkefnið er brýnt og verkefnið er ljóst: atvinna, atvinna, atvinna.“