Mannréttinda-, nýsköpunar, og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar segir óásættanlegt að starfsfólk borgarinnar beri fordómafull skilaboð til gesta sundlauga eins og átti sér stað í Grafarvogslaug nú á dögunum.

Fréttablaðið greindi frá því þegar Steina Daníelsdóttir og kærasta hennar Kolbrún Ósk Ólafsdóttir lentu í óþægilegu atviki í Grafarvogslaug eftir að þær kysstust fyrir framan sundlaugargesti. Sundlaugarvörður kom upp að Kolbrúnu og sagði henni að ákveðnir sundlaugargestir hefðu kvartað yfir því að þær væru að haga sér á óviðeigandi hátt. Annað hinsegin par hefur lýst svipaðri reynslu í sömu laug.

Í svari við fyrirspurn Frétttablaðsins sagði Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri hjá ÍTR að kynhneigð parsins hafi ekkert komið málinu við.

„Málið er þannig tilkomið að gestur laugarinnar kom til starfsmanns og kvartaði yfir óviðeigandi hegðun hjá ákveðnum einstaklingum. Starfsmaðurinn taldi því rétt að láta umrædda einstaklinga vita að gestir hafi kvartað undan hegðun þeirra. Þegar annar aðilinn kom fram þá fer starfsmaðurinn til viðkomandi og segir að gestur laugarinnar hafi kvartað undan hegðun þeirra og starfsmaðurinn vildi bara láta vita af þeirri kvörtun. Viðkomandi meðtók þetta og taldi starfsmaðurinn þá að málinu væri lokið,“ sagði Steinþór hjá ÍTR.

Ófullægjandi svör frá ÍTR

Fréttablaðið óskaði eftir frekari svörum og sendi eftirfarandi spurningar á ÍTR:

„Hvað var það nákvæmlega við hegðun þeirra sem var talin óviðeigandi? Nú sé ég að svipað atvik kom upp árið 2017 í sömu laug. Kemur þetta líka upp þegar um er að ræða gagnkynhneigð pör? Veistu hvort að þetta sé sami starfsmaðurinn?“

Svör ÍTR voru eftirfarandi:

„Ekki að það skipti máli – en nei starfsmaðurinn sem tók við kvörtuninni starfaði ekki í lauginni árið 2017.“

Andstætt mannréttindastefnu

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðið samþykkti ályktunartillögu í dag þar sem fram kemur að atvikið sem átti sér stað sé andstætt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

„Samkvæmt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar eiga allar manneskjur að njóta mannréttinda án tillits til kynhneigðar, uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu,“ segir í tillögunni.

„Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð ítrekar mikilvægi þess að íbúar njóti þjónustu borgarinnar án þess að eiga hættu á fordómum og mismunun. Það er andstætt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og óásættanlegt að starfsfólk borgarinnar beri fordómafull skilaboð til gesta sundlauga eins og átti sé stað í Grafarvogslaug í febrúar 2020. Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð lítur svo á að tækifæri sé til að bæta þjónustu borgarinnar í takti við mannréttindastefnuna og hvetur menningar-, íþrótta- og tómstundaráð til að bregðast skjótt við.“