Bensínverð á Íslandi er það áttunda hæsta í heimi samkvæmt ástralska greiningarfyrirtækinu Finder. Að fylla meðaltank fólksbíls, 50 lítra, kostar hér 14.600 krónur en meðalverð hvers bensínlítra var 292,7 krónur.

Langdýrasta bensínið er að finna í Hong Hong, en þar kostar tankurinn 18.500 krónur. Þá kemur Holland, Noregur, Mónakó, Ísrael, Simb­abve og Finnland, áður en kemur að Íslandi.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur rokið upp í vetur og stríðið í Úkraínu hefur ekki gert neitt til að draga úr þeirri hækkun. Bensínverð á Íslandi hefur aldrei verið hærra en nú.

Meðalverð tanksins er um 8.700 krónur í því 171 landi sem greiningin nær til. Í Kína kostar hann 9.400 krónur, í Bandaríkjunum 7.800 krónur og í Rússlandi aðeins 4.000 krónur.

Ódýrasta bensínið er í Venesúela en þar kostar heilar 160 krónur að fylla tankinn. Venesúela er olíu­ríki og þar hefur stjórn sósíalista niðurgreitt bensín í áratugi.

Svipað verð má finna í Líbíu og Íran en í Sádí-Arabíu, mesta olíuvinnsluríki heims, kostar tankurinn tæpar 4.000 krónur.